136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

104. mál
[14:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil nú upplýsa hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um það að það er ekki nóg bara að taka vítamínin sín á morgnana, hv. þingmaður verður að fara að mínu fordæmi í því efni, ég læt mér ekki nægja að taka þrjár gerðir af vítamínum heldur fæ ég mér alltaf vænan slurk af lýsi. Það er þess vegna sem iðnaðarráðherra er þrátt fyrir allt svo keikur og glaður og brattur í dag, m.a. vegna þess að ég fagna þessari fyrirspurn frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur.

Hv. þingmaður gerir að umræðuefni hugsanlega skaðsemi brennisteinsvetnis og það er alveg rétt að sú lofttegund er hættuleg yfir ákveðnum mörkum og hún kemur m.a. frá jarðvarmaveitum. Ég hef kynnt mér niðurstöður mælinganna sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Nú er það svo að í íslenskum reglugerðum eru engin sérstök mörk, hvorki gróðurverndarmörk, lyktarmörk né heilsuskaðsemismörk og ég tel að það sé ekki gott. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hins vegar sett slík mörk. Mörk hennar eru hundraðfalt minni en þau mörk sem almennt eru talin valda skaða á heilsu og ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að ég hef efasemdir um að þessi alþjóðlegu mörk séu nógu lág. Sömuleiðis hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sett ákveðin lyktarmörk líka sem miðast við það að 83% venjulegra einstaklinga nemi lyktina.

Ég sagði áðan að svarið við spurningu hv. þingmanns væri jákvætt. Ég hef kynnt mér niðurstöðurnar og það hefur komið í ljós að frá því að mælingar hófust, ég held í byrjun árs 2006, hefur styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti jafnt og þétt farið vaxandi og það er áhyggjuefni. Það er einnig áhyggjuefni sem hv. þingmaður nefndi, m.a. um áhrifin á gróður, ég hef minni áhyggjur af því þó að bílaforði starfsmanna Orkuveitunnar skaðist eitthvað örlítið af ryði eða tæringu en ég hef áhyggjur af gróðrinum. Auðvitað verður líka að velta fyrir sér hvort hugsanlegt sé að langvarandi nábýli við mengun af þessu tagi geti haft skaðleg áhrif á heilsu manna.

Ég vek hins vegar eftirtekt á því að þær mælingar sem hafa farið fram benda til þess að styrkurinn sé þrátt fyrir allt langt, langt undir þeim heilsuverndarmörkum sem alþjóðlegar stofnanir hafa sett. Hv. þingmaður spyr mig hins vegar með hvaða hætti ég telji að eigi að bregðast við þessu. Ég tel, frú forseti, að það eigi t.d. að bregðast við með þeim hætti sem Skipulagsstofnun gerði þegar hún afgreiddi Hverahlíðarvirkjun. Þar setti hún sem skilyrði að áður en hún yrði gangsett væri búið að koma upp búnaði sem næmi brennisteinsvetni úr blæstrinum. Ég held að það sé lang-, langbesta leiðin.

Það eru til ýmsar leiðir. Ég gæti nefnt fjórar en ég kýs að nefna tvær vegna þess að mér finnast þær vera langbestar. Í fyrsta lagi að nota örverur til þess beinlínis að éta það úr loftinu. Það felst í því að til verður úr örverunum ákveðið hráefni sem hægt er að selja, m.a. til fóðurs og ýmiss konar nýtingar. Í öðru lagi höfum við í iðnaðarráðuneytinu m.a. styrkt verkefni með nokkrum tugum milljóna hér innan lands, sem miðaði að því að finna og þróa í krafti þess sem kalla má orkulíftækni örverur sem koma úr safni sem menn hafa tekið við neðansjávarhveri, í loftfirrðu umhverfi, þar sem örverur beinlínis éta brennisteininn og skila honum tárhreinum. Sú vara er mjög mikilvæg og hún er dýr. Þarna held ég að sé hægt að slá tvær flugur í einu höggi, framleiða mikilvæga afurð og ná þessu úr andrúmsloftinu.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það þarf að setja í umhverfisreglugerðir mörk sem ekki eru til í dag, bæði varðandi gróðurfarsmörk, lyktarmörk og það sem við getum kallað heilsufarsmörk.

Hv. þingmaður spyr mig síðan um tæringuna og hvað sé verið að gera varðandi það mál. Þá er frá því að greina að það er alveg hárrétt hjá henni að þetta hefur ákveðinn tæringarmátt sem til framtíðar gæti aukið svolítið kostnað þeirra sem fara með línulagnirnar. Orkuveita Reykjavíkur er með rannsóknir á þessu, Landsnet hefur samning við Orkuveituna. Það er talið að kostnaðurinn af þessu verði ekki mjög mikill en umfram allt skiptir það máli að (Forseti hringir.) fjarlægja þetta úr útblæstrinum. Ég er sammála hv. þingmanni um það.