136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

104. mál
[14:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti framsögu fyrir gagnmerkri þingsályktunartillögu í gær. Ég ætlaði að vera viðstaddur til að taka þátt í umræðunni, eins og ég hef oft reynt þegar hv. þingmaður flytur tillögur, og hægt er að sjá af verkum mínum að ég hef stundum hlustað á og farið að ráðum hv. þingmanns. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim störfum sem hv. þingmaður hefur einkum tekið að sér, að veita okkur sem förum með framkvæmdarvaldið mjög hart og virkt aðhald í þessum efnum. Þannig á það að vera. Ég þurfti því miður að fara og gat ekki tekið þátt í umræðunni í gær en hafði búið mig undir hana.

Ég er sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um nauðsyn þess að þingmenn geti í efnum sem þessum veitt framkvæmdarvaldinu aðhald. Hér ræðum við mál sem gæti hugsanlega haft áhrif á heilsu manna og það þurfum við að ræða hvað sem líður öðrum erfiðleikum þjóðarinnar.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði brennisteinsvetnismengun af völdum jarðvarmavirkjana vera, a.m.k. á sumum stöðum, meiri en menn ætluðu. Hún telur nauðsynlegt að setja reglur um umhverfismörk. Ég er því hjartanlega sammála. En ég undirstrika að hugsanleg áhrif á heilsu manna og áhrif á gróður og mannvirki verða leyst ef okkur tekst að hrinda í framkvæmd aðferðum, sem ég tel að liggi á teikniborðinu, þróuðum af Íslendingum um hvernig megi taka brennisteinsvetnið úr útblæstrinum.

Um kostnaðinn er það að segja að vonir standa til að úr þessu verði til tárhreinn brennisteinn. Erfitt er að fá hann og framleiða og hann er afskaplega dýr þannig að ég tel þetta verða virðisauka fyrir virkjanirnar.