136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mengunarmælingar við Þingvallavatn.

78. mál
[14:40]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna ábendinga hv. þingmanns þá verður það að koma fram að auðvitað er verið að mæla niturmagnið eða köfnunarefnismengunina í úrkomunni með mælum. Hins vegar er aðferðin við að meta þurrákomuna einmitt mat, það er metið og til þess eru notaðir sérstakir líkanareikningar og samkvæmt mínum upplýsingum hefur Vegagerðin aflað sér upplýsinga um það mat. Mér skilst að þar sé einmitt farið eftir evrópskum aðferðum, t.d. hefur verið nefnt að menn hafi leitað ráða í Noregi og ég geri ráð fyrir að notast sé við samræmdar evrópskar aðferðir, þ.e. að leggja mat á þurrákomuna, af því að þannig fer sú mæling fram. Það er í raun og veru mat eftir líkani sem ég get því miður ekki skýrt betur hér og nú en það fer fram líka.

Að auki langaði mig til þess að taka undir með hv. þingmanni, að auðvitað eru þetta athyglisverðar og umhugsunarverðar niðurstöður sem koma fram í rannsóknum Náttúrustofu Kópavogs um tærleika vatnsins og nokkuð sem væntanlega verður rannsakað frekar. En við þurfum þá einnig að meta og sjá hvað veldur og hvað er í raun hægt að gera í því eða hvernig sé hægt að ráða bót á því þar sem ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það eru ekki góðar fréttir.