136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti.

105. mál
[14:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla með nokkrum orðum að fylgja úr hlaði fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra á þskj. 113, 105. mál, um mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti.

Spurt er:

1. Hvernig er háttað mælingum á loftbornu brennisteinsvetni á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði?

2. Hvar eru mælistöðvar staðsettar og hvenær voru þær settar upp?

3. Eru uppi áform um að fjölga mælistöðvum í byggð umhverfis Hellisheiði og telur ráðherra forsvaranlegt að eina færanlega mælistöð heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar hafi lengst af í sumar verið óstarfhæf?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er, eins og tilefni fyrirspurnar minnar til hæstv. iðnaðarráðherra fyrr í dag, að leita í þeirri staðreynd að mengun af völdum brennisteinsvetnis frá jarðvarmavirkjunum á Hellisheiði er miklum mun meiri en menn höfðu gert ráð fyrir í umhverfismati. Hún er svo mikil að menn telja jafnvel að það geti verið heilsu manna hættulegt. Það er greinilegt að það hefur slæm áhrif á gróður og fyrr í dag var um það rætt að þetta hefur einnig áhrif á mannvirki.

Nú mun gufan í Hellisheiði vera óvenju rík af brennisteinsvetni. En í þingsályktunartillögu sem ég mælti fyrir í gær og er að finna á þskj. 29, um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af manna völdum í andrúmslofti, eru í greinargerð rakin þau áhrif brennisteinsvetnis sem hafa orðið til þess að í öðrum löndum hafa menn sett umhverfismörk fyrir leyfilegum hámarksstyrk þess. En um það fjallar einmitt sú þingsályktunartillaga.

Það er auðvitað þyngra en tárum taki að þessar mælingar sem sýna hina miklu aukningu á brennisteinsvetni eru teknar í 25–30 kílómetra fjarlægð frá upptökum mengunarinnar. Það er mín skoðun að það sé mjög mikilvægt, eins og reyndar kemur fram í þingsályktunartillögunni, að auka mjög rannsóknir á losun brennisteinsvetnis og tryggja að fram fari ítarlegri mælingar og á fleiri stöðum auk þess sem gerðar verði ráðstafanir til þess að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri jarðgufu virkjananna.

Þetta eru forsendurnar, herra forseti, fyrir þeim spurningum sem fram eru bornar á þskj. 113.