136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

lán Landsbankans til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

[10:36]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að sjá hæstv. ráðherra Björgvin Sigurðsson hér í dag en hann heldur utan um tvö mikilvæg svið í nútímasamfélagi sem bankamálaráðherra og samkeppnismálaráðherra.

Við höfum miklar áhyggjur af þeirri þróun sem hér hefur verið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort bráðabirgðabankaráð Landsbanka Íslands sé búið að ganga frá því með einhverjum hætti að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi fengið í hendur nánast alla einkarekna fjölmiðla á Íslandi. Ég spyr: Eru bráðabirgðabankaráð og bankastjórn búin að ganga frá þessum hlut? Ég sé að Jón Ásgeir Jóhannesson segir í dag að hann sjái að það sé ófært fyrir sig að eiga þessa fjölmiðla alla því að samkeppni þurfi að ríkja og þess vegna ætlaði hann að selja þá. Ég er tilbúinn að flytja þingmál þar sem Alþingi gæfi ríkisstjórninni heimild til að kaupa þessa fjölmiðla og selja þá aftur því að margir munu vilja eignast þá og lýðræðið verður að hafa að leiðarljósi. Um þetta vil ég spyrja.

Svo verð ég að spyrja bankamálaráðherrann, hitt sagði ég við samkeppnisráðherrann: Er ekki rétt að fara inn í þessa banka eins og umræðan er á götunni og velta um borðum víxlaranna? Við trúðum því að byggja ætti upp nýja, sterka banka en sögusagnirnar af götunni og menn eins og Egill Helgason — sá bloggari á Íslandi sem fær mest viðbrögð — segja að einn fyrrverandi bankastjóri Landsbankans gangi þar um og sé nú í vinnu hjá Baugi að ganga frá þessum málum. Sagt er að annar bankastjóri sem ber ábyrgð á þeim stóru málum síðustu mánaða (Forseti hringir.) sé orðinn aðalráðgjafi og starfsmaður Fjármálaeftirlitsins. Hvar erum við stödd, Íslendingar, ef ekki er hægt að gera þetta með heiðarlegum hætti?