136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

lán Landsbankans til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

[10:38]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að undirstrika hér að að sjálfsögðu verður allt gert með heiðarlegum og gagnsæjum hætti. Það vita allir að embættismannastjórnunum sem skipaðar voru tímabundið á sínum tíma var fyrst og fremst falið það hlutverk að halda íslensku bönkunum gangandi til að hér frysu ekki greiðslukerfi og til að bankamálin væru ekki í því ástandi að ekki væru starfandi bankar eftir hrun einkareknu bankanna. Það var verkefni þeirra fyrst og fremst.

Á morgun verða þau tímamót í rekstri hinna nýju banka og uppbyggingu nýrra, góðra, sanngjarnra og heiðarlegra banka að valdar verða varanlegar bankastjórnir. Þær verða skipaðar af fjármálaráðherra með aðkomu allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Það eru mikil tímamót í þessari uppbyggingu. Embættismannastjórnirnar hafa staðið sig afskaplega vel við ákaflega erfiðar aðstæður. Það er mjög auðvelt að hlaupa hér upp með alls konar sögusagnir og fleira en það er hins vegar ekki viðeigandi í jafnviðkvæmri umræðu og þessari. Hvað varðar einkarekna fjölmiðla og Jón Ásgeir (Gripið fram í.) er um að ræða fyrirtæki sem er enn í rekstri. Einu upplýsingarnar sem ég hef úr Landsbankanum eru þær (Gripið fram í.) — ég er að svara þér beint núna, virðulegi formaður — að hann hafi ekki fengið krónu að láni frá Landsbankanum til þessara hluta. Það eru þær upplýsingar sem ég hef úr bankaráði Landsbankans.

Um rekstur þessa fyrirtækis veit ég ekki annað en það sem ég las í blöðunum í dag, að Jón Ásgeir talaði sjálfur um að ekki væri heppilegt að þessir miðlar söfnuðust á eina hendi og tók þar með undir umræður í þinginu frá því fyrr í vikunni. (BjH: Treystir viðskiptaráðherra Jóni Ásgeiri?) Við erum ekki að ræða um traust og vantraust á einhverjum mönnum. Ég er að svara spurningum beint frá hv. formanni Framsóknarflokksins um hvort búið sé að ganga frá því í bráðabirgðastjórn Landsbankans (Forseti hringir.) að Jón Ásgeir eignist alla fjölmiðla í landinu. — Að sjálfsögðu ekki.