136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

lán Landsbankans til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

[10:40]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér komu engin svör. Ekki ætla ég að fara að skíta út persónu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Hann hefur verið mikill athafnamaður og er skuldugasti Íslendingur samtímans í ríkisbönkunum núverandi. Hann hefur kallað hæstv. ráðherra út að nóttu sem degi og ef það er svo að bráðabirgðabankaráð nýju ríkisbankanna er búið að selja þessa fjölmiðla til eins manns er það á fulla ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Bráðabirgðabankaráð og bankastjórnir geta ekki gert það og nú á að skýla sér bak við það að stjórnarandstaðan eigi að koma inn í bankaráðin á morgun eins og rætt var um við okkur áður. Það er vandasamt verk eftir það sem hefur á undan gengið. Það hefði kannski þurft að gera það fyrr því að það eru miklar sögusagnir í gangi. Hvers vegna er sagt að aðallögmaður Kaupþings sem var ráðgjafinn varðandi að fella niður milljarðaskuldir af ríka fólkinu sem hafði tekið sér laun og braskað, sé núna aðalráðgjafi líka? (Forseti hringir.) Þetta er ekki hægt, þetta gengur ekki upp, hæstv. forseti. Það er hneyksli hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessu máli.