136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

ný bankaráð ríkisbankanna.

[10:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi svör. Íslenskt viðskipta- og atvinnulíf er á miklum tímamótum. Eftir langa uppsveiflu og góðæri erum við á þeim tímamótum að endurskipuleggja grundvallarstarfsemi íslensks atvinnulífs og einn mikilvægasti þáttur þess verks er endurreisn íslensks bankakerfis.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hve mikla ábyrgð og skyldur nýir stjórnarmenn bankanna takast á hendur í samfélaginu. Það er því grundvallaratriði að ráðning þeirra fari fram á faglegum forsendum og sé alls ekki lituð hagsmunum sem valdið geta deilum, hvorki pólitískt né samfélagslega. Áríðandi er að kalla til starfa fólk sem hefur sem víðtækasta reynslu úr atvinnulífinu hér á landi og jafnvel erlendis, fólk sem þekkir vel til grunnþarfa íslensks samfélags og atvinnulífs. Þannig getum við stuðlað að því, virðulegi forseti, að sem víðtækust sátt náist í samfélaginu um þetta mikilvæga atriði.