136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:05]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Þetta er nú með broslegri málflutningi sem hér hefur heyrst lengi. (Gripið fram í.) Það er verið að kalla eftir pólitískri stjórnun á bönkunum [Háreisti í þingsal.] — bara verið að kalla eftir beinni pólitískri stjórnun á bönkunum. En til þess að svara þessu algjörlega beint hafa smærri sjóðirnir óskað eftir því að eiga sambærileg viðskipti við ríkisbankana á viðskiptalegum forsendum. Þeirri ósk var að sjálfsögðu tekið þannig að viðræður standa nú yfir á milli þeirra og hinna. Ég svaraði því beint áðan.

Ég skal endurtaka hitt svarið að Fjármálaeftirlitið mælti fyrir um slit peningamarkaðssjóðanna þannig að þeim væri skipt í þá tvo hluta eins og ég lýsti áðan. Ákvörðunin um uppgjörið var tekin á viðskiptalegum forsendum með það að markmiði að takmarka eins og kostur væri tap þeirra sem áttu í þessum sjóðum. Það tókst að því leyti sem fram hefur komið. Landsbankinn var með 68–72%, hinir bankarnir 80–85%. Svo á eftir að koma í ljós hvernig fer í viðræðum smærri fjármálafyrirtækjanna og ríkisbankanna um þessi uppgjör og hvort þeir geti átt sambærileg viðskipti við þá. Það (Forseti hringir.) er bara mjög ánægjulegt að málið sé í þeim farvegi.