136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Ég tel að hún sé afar brýn og í rauninni ekki seinna vænna að ræða þann alvarlega vanda sem blasir við heimilum og fyrirtækjum landsins. Í rauninni má segja að vandinn sé risavaxinn.

Hrun bankanna var gríðarlegt áfall og það var ljóst fyrir nokkru síðan að vandi heimila og fyrirtækja landsmanna verður verri með hverjum deginum sem líður. Góð kona sagði eitt sinn við mig að þeir sem þekktu atvinnuleysi gætu fullyrt að það væri það versta sem fólk lenti í. Það hefur verið skýr stefna okkar framsóknarmanna að róa öllum árum að því að atvinnuleysi verði sem allra minnst í landinu og nú er þörf á að sú stefna komist fljótlega á að nýju.

Ég gerði mér miklar væntingar um að hið væntanlega lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrði strax sett út til fyrirtækja svo að hjól atvinnulífsins gætu farið að snúast að nýju. Stýrivaxtaákvörðunin var algjört reiðarslag. Einmitt þegar Seðlabankinn var byrjaður á stýrivaxtalækkunarferli hækkaði hann stýrivextina aftur í 18%. Og á hverjum bitnar þessi stýrivaxtahækkun? Jú, á heimilum landsmanna. Á fólki sem missir vinnuna í kjölfar þess að fyrirtækin í landinu eru komin í slíkan vanda að jafnvel vel rekin fyrirtæki geta lent í miklum greiðsluerfiðleikum. Við fengum þær fregnir á fundi viðskiptanefndar í morgun að tæknilega séð séu 60% eða 80% allra fyrirtækja í landinu gjaldþrota.

Færustu hagfræðingar okkar, Jón Daníelsson og Gylfi Zoëga, hafa ítrekað skýrt og komið með þá skoðun sína að vandinn sé svo mikill að ríkið þurfi jafnvel að fara í það að kaupa eignir landsmanna og leigja þeim þær aftur. Svo slæm er staðan orðin. Trúa menn því í alvörunni að krónan styrkist við þessa stýrivaxtahækkun? Ég hef afar litla trú á því. Færustu hagfræðingar landsins hafa líka afar litla trú á því. Þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa sumir enga trú á því.

Af hverju gefur ríkisstjórnin ekki skýr svör um hver skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru? Af hverju kemur ríkisstjórnin ekki hreint fram í þessu máli og upplýsir þjóðina um hvaða skilmála hún þarf að taka á sig til þess að rétta þjóðina við að nýju? Það er óvissan sem nagar heimilin. Óvissan um hvort fólk haldi yfirleitt vinnunni sinni á morgun, hvort það þurfi að taka á sig enn frekari launalækkanir. Óvissan um hvort það nái að standa undir afborgunum næstu mánaðamóta, hvort það haldi húsinu sínu og hvort það eigi í sig og á á næstu mánuðum. Það er óvissan sem við verðum að eyða.

Í mínum huga er nauðsynlegt að íslenska þjóðin og Alþingi verði upplýst um hvað fram undan er í efnahagsmálum. Það má í raun líkja ástandinu við sjúkling sem bíður eftir sjúkdómsgreiningu. Jafnvel þeim sem fá slæma niðurstöðu er oft létt bara vegna þess að biðin eftir fréttunum var að gera út af við þá.

Það þarf að fara út í samræmdar aðgerðir strax. Allar þær ákvarðanir sem teknar verða á næstunni verða að miða að því styrkja (Forseti hringir.) undirstöður samfélags okkar, (Forseti hringir.) með því að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda, styrkja heimilin (Forseti hringir.) og búa vel í haginn fyrir börnin (Forseti hringir.) okkar.