136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óska landsmönnum og þingheimi til hamingju með daginn. Í dag er vímuvarnadagur og gott tilefni til að ræða afkomu heimilanna, velferð barna og öryggi fjölskyldunnar.

Megináhersla vímuvarnanna er að foreldrar og börn haldi vel saman og eyði meiri tíma saman. Hafi það einhvern tímann verið mikilvægt er það nú þegar óvissan er hvað mest. Þegar kvíði, óöryggi og reiði er vaxandi þurfum við öll að hafa í huga að upplýsa börnin okkar um ástandið og reyna að valda þeim ekki óþarfahræðslu.

Allir eru sammála um að slá þurfi skjaldborg um heimilin, fjölskylduna og einstaklingana. Tryggja þarf grunnþarfirnar, húsnæði, fæði og klæði og hindra að fólk fari í þrot, hindra að fjölskyldur leysist upp og að fólk flýi land. Gæta þarf samræmis við að vernda inneignir fólks um leið og hagur þeirra sem skulda er sem best tryggður. Í öllu þessu umróti reynir einmitt á velferðarkerfi okkar, hversu vel það er byggt, og réttilega hefur verið bent á að þar þarf ýmislegt að efla.

Við getum verið sammála um að mikilvægt er að ná betur utan um úrræði stjórnvalda. Koma þarf á heildstæðri aðgerðaáætlun og veita betri upplýsingar um aðgerðir til hjálpar heimilunum. Kynna þarf betur þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar og ræða þær sem eru í farvatninu og á eftir að koma með inn í þingið.

Það er mikil og góð vinna í gangi. Menn hafa staðið vaktina og félags- og tryggingamálaráðuneyti hefur sett upp heimasíðu og grænt símanúmer til að gefa upplýsingar. Á þeirri síðu eru tengingar við upplýsingasíður stofnana, stéttarfélaga, sveitarfélaga og frjálsra félaga og allir hafa unnið sína vinnu. Félags- og tryggingamálanefnd hefur farið yfir stöðuna og rætt þar viðbrögð ráðuneytisins. Hún hefur fengið aðila Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Barnaverndarstofu, Tryggingastofnun og aðila atvinnulífsins á sinn fund. Þar kom mjög skýrt fram hversu vel er unnið að mörgum málum.

Næstkomandi mánudag verður ráðherra félags- og tryggingamála á fundi félags- og tryggingamálanefndar. Þar verða rædd verkefni vetrarins og þar fáum við væntanlega frjóa og uppbyggilega umræðu um hugsanleg úrræði til að tryggja afkomu heimilanna.

Ég hef átt þess kost að starfa í starfshópi sem er á vegum þingflokka stjórnarflokkanna í félagsmálaráðuneytinu og ræða þar um hvernig hægt verði að tryggja afkomu heimilanna. Þar hafa fæðst margar hugmyndir sem hefur þá verið vísað til ráðherra. Margar þeirra hafa síðan farið til ríkisstjórnar og sumar eru þegar komnar til framkvæmda.

Við höfum heyrt þar um rýmkun á reglum Íbúðalánasjóðs varðandi greiðsluerfiðleikaúrræði og þar sem bönkum hefur verið gert að fylgja sömu úrræðum. Lífeyrissjóðirnir hafa einnig tekið vel á þeim málum. Við höfum heyrt um tilmæli um að frysta gengistryggð íbúðalán. Það hefur komið til framkvæmda og við höfum rætt færslu íbúðalána til Íbúðalánasjóðs. Þar verður að viðurkenna að það mál hefur tafist. Það virðist nokkuð flókið með tilliti til eigin fjár og þess að tryggja Íbúðalánasjóði örugga afkomu. Það þarf að afgreiða sem fyrst.

Við höfum rætt um stimpilgjöldin, allan innheimtukostnað, uppgreiðslugjöld og annað þess háttar. Við höfum rætt um lög um greiðsluaðlögun sem eru væntanleg inn í þingið fljótlega. Búið er að setja í ákveðinn farveg umræðu um verðbólgu og gengisþróun með hvaða hætti hægt er að frysta eða koma til móts við hið alvarlega ástand þegar verðbólgan mælist langt umfram launavísitölu. Rætt hefur verið um innheimtuaðgerðir ríkis og sveitarfélaga, hvernig hægt sé að milda þær. Þannig væri hægt að halda áfram. Tíminn leyfir það því miður ekki.

Rætt hefur verið um námsmennina og við (Forseti hringir.) fáum tillögu um vinnumarkaðsúrræði inn í þingið í dag. (Forseti hringir.) Sveitarfélögin hafa jafnframt verið (Forseti hringir.) aðvöruð og ræða nú gjaldskrá sína (Forseti hringir.) og afkomu fólks. Tíminn leyfir ekki mikið (Forseti hringir.) lengri ræðu en við fáum tækifæri síðar í dag til þess að (Forseti hringir.) ræða þessi mál að hluta til.