136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:17]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Um nokkurn tíma hefur verið mjög brýnt að þingið taki til umræðu og fari sérstaklega yfir stöðu heimilanna í landinu. Þegar utandagskrárbeiðnin var lögð fram strax í upphafi þessa þings voru það fyrst og fremst vaxandi vanskil húsnæðislána og skuldastaða heimilanna sem kallaði á sérstaka umræðu og aðgerðir til að bjarga fleiri fjölskyldum frá því að missa heimili sín og verða gjaldþrota með öllum þeim hörmulegu afleiðingum sem af því leiðir. Á þeim rúma mánuði sem liðinn er hefur allt samfélagið farið á hvolf vegna hruns bankanna og húsnæðislánin eru einungis hluti af enn dýpri og nær yfirþyrmandi efnahagsvanda sem stjórnvöld, atvinnulífið og heimilin í landinu standa skyndilega frammi fyrir.

Ástandinu í dag er erfitt að lýsa. Hver og einn finnur það á eigin líkama og sál að ekkert er eins og það var. Engin fordæmi eru fyrir því að fullvalda ríki tapi svo miklu í einni svipan og því finnst hvergi leiðarvísir sem svo fámenn þjóð getur farið eftir. Það sem gerir stöðu okkar enn erfiðari eru hin miklu kross- og hagsmunatengsl sem hafa fengið að þróast í lausbeisluðu markaðssamfélagi.

Skuldsetning heimilanna fór verulega að aukast eftir einkavæðingu bankanna og yfirtöku þeirra á íbúðalánamarkaðnum. Léttara aðgengi að neyslulánum á mesta þenslutímabili Íslandssögunnar hefur nú komið mörgum í greiðsluerfiðleika, sérstaklega þeim sem tóku tilboði bankanna um lán í erlendri mynt eða evrulán og þyngja þau enn frekar greiðslubyrðina vegna gengisfellingar krónunnar. Þar til viðbótar koma ofurvextir og vísitölutrygging lána.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi vinnst ekki tími til að skoða hverjir það eru sem hafa fjárfest óvarlega og hverjir það voru sem tóku lán til að hafa þak yfir höfuðið. Afleiðingarnar verða þær sömu fyrir alla einstaklinga og fjölskyldur þeirra ef þeir missa ofan af sér húsnæðið og eru lýstir gjaldþrota. Það sem við blasir er að nú þegar hefur fjöldi fólks misst atvinnuna, ekki eingöngu í byggingariðnaðinum og þeim greinum sem honum tengjast en þar hlaut að koma til uppsagna vegna offjárfestinga heldur hefur hrun fjármálamarkaðarins, greiðslustöðvanir og óyfirstíganleg vaxtabyrði lána og yfirdráttarkostnaðar komið vel reknum fyrirtækjum í þrot, gert fleiri atvinnulausa en tilefni er til. Atvinnuleysi og uppsagnir eða óvissa um eigið atvinnuöryggi gerir afkomu heimilanna enn erfiðari.

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega minnast á þann mikla fjölda sem þarf að framfleyta sér á lægstu launatöxtunum, lífeyrisgreiðslunum og atvinnuleysisbótum. Þessir einstaklingar gátu varla lifað mannsæmandi lífi á bótagreiðslum fyrir hamfarirnar og ég tel að það sé útilokað fyrir fólk að framfleyta sér á þeim nú. Það verður að huga sérstaklega að kjörum þessara hópa og námsmanna sem framfleyta sér á námslánum.