136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:21]
Horfa

Rósa Guðbjartsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það steðja að erfiðari efnahagslegar aðstæður í landinu en flest okkar hefðum getað gert okkur í hugarlund að við mundum verða vitni að. Í þeirri óvissu sem enn ríkir um hve mikið efnahagslegt tjón verður hér á landi eru það heimilin og fjölskyldurnar sem okkur ber sérstaklega að hafa áhyggjur af og því ber að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál upp.

Þær þrengingar í atvinnulífinu sem blasa við koma á endanum fyrst og fremst niður á heimilunum og fjölskyldunum. Að þeim verðum við að hlúa og ekki síst börnunum og unglingunum sem munu eiga erfitt t.d. vegna atvinnuleysis foreldra og fjárhagsvandræða af þeim sökum. Það verður sameiginlegt verkefni okkar allra í öllum stofnunum þjóðfélagsins að takast á við þessa erfiðleika. Sveitarfélögin sem veita grunnþjónustu samfélagsins eru þar í veigamiklu hlutverki.

Nú er unnið að fjárhagsáætlun fyrir komandi ár í flestum sveitarfélögum landsins og víst er að þar verður víða erfitt að láta enda ná saman í þeim breyttu aðstæðum sem nú eru komnar upp. Sveitarfélögin eru svo sannarlega misjafnlega undir það búin að þurfa að takast á við fjárhagsleg áföll rétt eins og heimilin og fyrirtækin en ljóst er að flest þeirra verða að draga úr útgjöldum. Að mínu mati er afar mikilvægt að sveitarfélögin geri allt hvað hægt er til að láta væntanlegan niðurskurð ekki koma niður á þeim gjöldum sem barnafólk þarf að greiða. Það skiptir afkomu heimilanna í landinu gríðarlega miklu máli að gjöld á leikskólum og frístundaheimilum, gjöld fyrir skólamáltíðir og til íþrótta- og tómstundastarfs verði ekki hækkuð. Það skiptir heimilin og börnin okkar miklu máli að sem minnstar breytingar eða röskun verði á ytri aðstæðum eða félagslífi þeirra, þ.e. að þau geti enn sótt frístundaheimilin, stundað sínar íþróttir eða tómstundir óháð efnahag og fjárhagslegum aðstæðum foreldranna. Þessi félagslega þátttaka þeirra skiptir líklega aldrei meira máli en einmitt nú. Börnunum er svo mikilvægt að daglegt líf þeirra haldi sem mest óbreytt áfram þrátt fyrir fjárhagslegar þrengingar og nú á forvarnadegi er einmitt vert að minna á mikilvægi þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og hve mikið forvarnagildi slík þátttaka hefur.

Fræðslumálin eru kostnaðarsamasti liður sveitarfélaganna og þurfa sveitarfélögin óhjákvæmilega að beita niðurskurðarhnífnum á þeim vettvangi eins og annars staðar. Skólastjórnendurnir sjálfir þekkja líklega best hvar mögulegt er að hagræða innan skólanna sjálfra. Hvort sem það verður gert með því að draga úr forfallakennslu, fjölga nemendum sums staðar í bekkjum eða hvaða leiðir verða valdar er ljóst að það verða erfiðar ákvarðanir, enda um viðkvæman málaflokk að ræða. Að mínu mati er þó mikilvægt að passað verði upp á börn sem af misjöfnum ástæðum eiga undir högg að sækja í skólakerfinu, að í lengstu lög verði hlúð að þeim sem minnst mega sín í skólanum.

Á undanförnum árum, á góðæristíma, hafa sveitarfélögin tekist á hendur ýmis og fjölbreytt ný verkefni en nú verður að velja og hafna. Hver eru þau nauðsynlegustu og hvaða verkefni geta íbúarnir verið án? En umfram allt skulum við sameinast um að passa upp á hagsmunamál og heill barnanna okkar og þá um leið afkomu heimilanna.