136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:47]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir hér á landi nú eftir hrun bankanna þarf að huga að öðrum gildum en þeim sem hafa ráðið ferðinni í samfélagi okkar undanfarin ár. Nú þarf að hafa manngildið í heiðri, manngildið ofar auðgildinu. Allir verða og eru reyndar að leggjast á eitt við að lina áhrif þessarar holskeflu sem ríður á okkur, lina áhrifin á venjulegt fólk og heimilin í landinu. ASÍ gerði það á ársfundi sínum með aðgerðaáætlun og hagspá, geysilega mikilvægt framlag og fín vinna. Samtök atvinnulífsins, BSRB og önnur hagsmunasamtök hafa komið að málum og allir verða að taka höndum saman og eru að gera það.

Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu um grundvallarvelferðarmál dagsins, afkomu heimilanna. Erfiðir tímar eru fram undan og á vegum ríkisstjórnarinnar hefur verið lögð nótt við dag í að vinna aðgerðaáætlun til að vernda heimilin og endurheimta fjármálastöðugleika sem er ærið verk Við verðum að standa vörð um velferðina, það er aldrei mikilvægara en nú. Standa vörð um þá sem þurfa að treysta á hana, aldraða, öryrkja, sjúklinga og aðra sem treysta á velferðarþjónustuna. Nú þegar hefur ríkisstjórnin samþykkt fjölmargar aðgerðir til að tryggja velferð almennings við þessar aðstæður og um leið afkomu heimilanna sem er auðvitað forgangsmál.

Hæstv. forsætisráðherra rakti allmörg atriði í ræðu sinni og ég ætla ekki að endurtaka það en mig langar til að nefna aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi, þ.e. frumvarp sem liggur nú fyrir og verður rætt á eftir um breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð, mjög mikilvægt mál sem ber að hraða í gegnum þingið.

Ég ætla að nefna nokkra þætti sem unnið er að vegna þess að fólk kallar eftir svörum, hvað er verið að gera og við eigum að svara því. Samfélagsleg ábyrgð ríkisbankanna er og verður mjög mikil og þeim verður falið að sinna henni. Þeim hefur verið falið að innleiða þegar úrræði fyrir einstaklinga sem lenda í greiðsluvanda á sambærilegan hátt og Íbúðalánasjóður starfar eftir. Þeim er falið að flýta sem kostur er færslu allra lána með veðum í íbúðarhúsnæði yfir til Íbúðalánasjóðs. Til stendur að breyta lögum um að fella tímabundið niður stimpilgjöld af skilmálabreytingum og skuldbreytingalánum af íbúðarhúsnæðisveðlánum, heimilt verður að skuldbreyta lánum vegna vanskila hjá Íbúðalánasjóði og þau lengd í 30 ár í stað 15 ára, greiðsluaðlögun einstaklinga verður komið á og verið er að vinna í vanda lántakenda vegna verðtryggingar. En ég held að það sé rétt sem Lilja Mósesdóttir sagði á fundi Samfylkingarinnar í gærkvöldi að menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af verðtryggingunni, ástandið yrði þannig að verðbólga væri ekki fram undan. (Forseti hringir.)

Að mörgu er að hyggja. Við verðum að svara spurningum fólks og það er búið að koma upp samræmdri þjónustu (Forseti hringir.) og upplýsinganeti til að svara spurningum og ég hvet fólk til að nota sér það.