136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir gríðarlegum efnahagsvanda og sá vandi vindur upp á sig. Í samfélaginu ríkir ótti, kvíði og reiði og það er skiljanlegt. Ástæður þessa vanda eru margþættar og verða væntanlega rannsakaðar af þar til bærum fagaðilum og í ljós mun koma hvar upphafið liggur og þeir sem hugsanlega þurfa að svara til saka munu gera það.

Forsendan fyrir því að við getum tekið á þessum efnahagsvanda er gengisþróun krónunnar, að krónan styrkist, því að það mun hafa úrslitaáhrif á það hve djúpur og varanlegur þessi samdráttur í efnahagsvanda þjóðarinnar verður. Við þurfum líka að koma gjaldeyrismarkaði þjóðarinnar af stað. Við þurfum gegnsæjar reglur um það hverjir fá gjaldeyri og hverjir ekki. Það á hvorki að vera háð duttlungum né vekja tortryggni eða neitt í þá veru. Hins vegar skiptir meginmáli að fram undan er hjá fjölda fólks atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun og áhyggjur af húsnæði og greiðslubyrði lána.

Hvað þurfum við að gera? Í mínum huga er það algerlega klárt að rýmka verður lána- og greiðslukjör bæði til fyrirtækja og einstaklinga til að komast hjá keðjuverkandi gjaldþrotum. Þetta verður að gera strax og allir verða að sitja við sama borð. Það er ekki nóg að fela Íbúðalánasjóði eða bönkunum að gera tiltekna hluti, það þarf að binda þetta með lögum og þar kemur aðkoma Alþingis. Sett voru lög árið 1985, nr. 63, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Ég tel að dusta þurfi rykið af þeim lögum og skoða þau og Alþingi þurfi að setja lög þar sem allir sitja við sama borð og séu ekki háðir duttlungum hvorki Íbúðalánasjóðs né bankanna. Þetta verður að gera, sama hvernig fólk hefur stofnað til skulda sinna. Þetta er grundvallaratriði og þarna þarf Alþingi að láta til sín taka.

Við þurfum líka að taka til í rekstri ríkisins. Þar verður að skoða hvað má betur fara, hvar er hægt að skera niður án þess að það bitni á velferðarþjónustu samfélagsins. Í mínum huga er ekki hægt að hækka skatta við þessar aðstæður. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa, mörg hver, komið sér saman um, og fleiri sveitarfélög í kjörnum úti á landi, að vinna saman og reyna að stemma stigu við hækkun gjaldskráa, standa vörð um velferðarþjónustuna og grunnþjónustu samfélagsins. Á því ríður nú. Skattahækkanir og gjaldskrárhækkanir verða ekki til þess að aðstoða fjölskyldur og heimilin í landinu en grunnatriðið er að aðstoða fólk, aðstoða fjölskyldur við að halda húsum sínum, heimilum sínum, hvernig sem til þeirra lána var stofnað. Þar verður Alþingi að koma að og setja lög þannig að allir sitji við sama borð en séu ekki háðir duttlungum þeirra sem vinna í bönkum eða hjá Íbúðalánasjóði. Það er brýnast, það eru skilaboðin sem þarf að senda heimilunum í landinu.