136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[13:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hér hefur margt verið ágætlega sagt, bæði úr röðum stjórnarandstöðu og stjórnar þó að ég skrifi ekki upp á alla hluti þar. Og ekki skrifa ég upp á ræðu hæstv. forsætisráðherra eins og þingmaður Samfylkingarinnar gerði hér áðan og hvatti þjóðina til þess að lesa hana rækilega. Hún olli mér sannast sagna miklum vonbrigðum.

Hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, segist vera önnum kafinn við björgunaraðgerðir. Á hvern hátt er ríkisstjórn hans önnum kafin? Í hverju birtist björgunarleiðangur Geirs H. Haardes, hæstv. ráðherra, íslenskri þjóð? Það er einkum í fimm liðum:

Í fyrsta lagi birtist björgunaraðgerðin í því að hækka stýrivexti um 50%, að vísu að skipun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en með samþykki ríkisstjórnarinnar. Einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Pétur H. Blöndal, sagði áðan að honum þættu þessir vextir að vísu heldur háir. Yfirdráttarvextir á Íslandi eru núna 26,5%, það eru 265 þús. kr. fyrir hverja milljón í vanskilum, fyrir heimili og fyrirtæki — heldur háir. Þetta er björgunaraðgerð hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, að keyra hér upp vaxtastigið og setja hengingaról á heimili og fyrirtæki.

Í öðru lagi talar ríkisstjórnin um að frysta lán og fresta afborgunum af lánum. Gott og vel. Það er ekki talað um að lækka vexti og létta byrðunum af fólki til frambúðar, nei, það á að fresta greiðslunum. Þetta er það sem á sínum tíma var kallað að lengja í hengingarólinni.

Í þriðja lagi kynnti hæstv. forsætisráðherra okkur ráðagerðir sem ættaðar eru frá því í upphafi ársins í kjarasamningum á vinnumarkaði. Þetta var okkur kynnt hér sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar við núverandi vanda. Þá er talað um að setja krónuna á flot, talað er um það sem aðgerð. Hæstv. viðskiptaráðherra kynnti þá aðgerð fyrir okkur. Það á að gera að hætti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með því að keyra upp vextina til að halda í við fjármagnsflæðið út úr landinu. Reyndar lýstu ráðherrar því yfir um leið og það var gert að þetta stæði bara í stuttan tíma sem var vísbending til allra um að drífa sig úr landi með gjaldeyrinn. Þetta eru nú vinnubrögðin á þeim bænum og ég hef miklar efasemdir um aðferðafræðina þar.

Síðan vek ég athygli þingsins á því sem sagt var um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Okkur verður náðarsamlegast kynnt bréf á mánudaginn, okkur verður ekkert sagt hvað þessum aðilum fór í milli. Er t.d. ríkisstjórnin búin að taka út af sínu borði frumvarp sem var tilbúið hér í haust um að gera Íbúðalánasjóð að hlutafélagi? Er hæstv. heilbrigðisráðherra og þar með ríkisstjórnin staðráðin í að halda áfram markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins?

Ég ítreka jafnframt spurningar mínar til hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að segja við einstaklinginn atvinnulausa (Forseti hringir.) með 136 þúsund á mánuði, við öryrkjann, aldraða? Stendur til að boða til (Forseti hringir.) róttækra breytinga í skattkerfinu með hátekjuskatti og kjarajöfnun, (Forseti hringir.) að afnema gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, í skólakerfinu? (Forseti hringir.) Ég auglýsi eftir einhverjum svörum, ekki gömlum lummum og aðgerðaleysi, (Forseti hringir.) að menn séu sveittir við að gera ekki neitt.