136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:40]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Um mitt sumar tilkynnti ríkisstjórnin um aðgerðir til að liðka fyrir fasteignaviðskiptum. Þær fólu í sér hækkun hámarkslána, afnám viðmiðunarlána við brunabótamat og útgáfu nýrra skuldabréfaflokka til að fjármagna ný og eldri húsnæðislán innan stofnana. Einnig hefur verið gripið til aðgerða til að efla húsaleigumarkað með umtalsverðri hækkun húsaleigubóta og fjölgun á félagslegum leiguíbúðum. Ég er ekki í vafa um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sumar komi í veg fyrir algera stöðnun á fasteignamarkaði en snemma í haust var Íbúðalánasjóður nánast orðinn einn á markaðnum.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2009, sem var lagt fram 1. október, var gert ráð fyrir fjórðungssamdrætti í fasteignaviðskiptum á árinu að magni til, sem endurspeglar snarpan samdrátt í fasteignaviðskiptum, mikið magn óseldra íbúða, takmörkun á lánsfjármagni til íbúðakaupa og aukinn kostnað.

Virðulegi forseti. Hið mikla áfall íslenska efnahagslífsins í byrjun október gerir eldri spár um framtíð fasteignaviðskipta að engu. Spá Seðlabankans í dag gerir ráð fyrir ríflega 40% lækkun íbúðaverðs að raunvirði til ársloka 2011 sem er hátt í helmingslækkun frá því að íbúðaverð náði hámarki árið 2007. Mikilvægast í húsnæðismálum nú er að reyna með öllum ráðum að gera fólki kleift að halda húsnæði sínu og forða heimilunum frá gjaldþroti vegna ört vaxandi greiðslubyrði. Að því er nú unnið í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Óhjákvæmilegt er að eignir fólks muni á næstunni rýrna að verðgildi. Til lengri tíma mun virði eigna ráðast af því hvernig okkur gengur að vinna okkur út úr erfiðleikunum og laga greiðslubyrði að greiðslugetu fólks. Í því skyni hef ég rýmkað heimildir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við lántakendur sem lenda í greiðsluvanda. Íbúðalánasjóður getur nú heimilað lántakendum að greiða eingöngu vexti og verðbætur af vöxtum og verðbótum í tiltekinn tíma. Þessar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum sem geta m.a. falist í skuldbreytingum vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana í allt að þrjú ár.

Ég hef lagt fram frumvarp á Alþingi — síðast er ég vissi var það til umfjöllunar hjá stjórnarflokkunum — sem heimila Íbúðalánasjóði að veita skuldbreytingarlán vegna greiðsluerfiðleika til allt að 30 ára í stað 15 ára áður og fyrir liggur að fella niður stimpilgjald vegna skilmálabreytinga og skuldbreytinga af vanskilalánum. Íbúðalánasjóði er jafnframt veitt heimild til að leigja fyrri íbúum eða fela öðrum, t.d. sveitarfélögum, að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem stofnunin kann að eignast hvort sem um er ræða húsnæði í eigu einstaklinga eða leigufélaga og er það afar mikilvægt ákvæði.

Þá hefur Íbúðalánasjóður mildað innheimtuaðgerðir stofnunarinnar. M.a. hefur frestur frá gjalddaga til sendingu greiðsluáskorana verið lengdur og heimilt er að afturkalla nauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings áður. Frestur til að rýma uppboðsíbúðir hefur verið lengdur og heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu á eldri íbúðum hafa verið rýmkaðar verulega. Tilmælum var beint til bankanna fyrir nokkrum vikum að gefa fólki kost á sömu greiðsluerfiðleikaúrræðum og lántakendum hjá Íbúðalánasjóði bjóðast. Bankarnir hafa brugðist misjafnlega við tilmælunum og m.a. til að gæta jafnræðis að þessu leyti finnst mér mikilvægt að húsnæðislánin verði flutt frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs. En fyrst þarf að ljúka mati á eignarfærslu á lánum milli gömlu og nýju bankanna og get ég því miður ekki sagt nákvæmlega til um það hvenær það getur orðið en ég vona að það verði sem allra fyrst.

Áhrif verðtryggingar á skuldir er áhyggjuefni. Áætla má að heildarskuldir heimilanna séu nú um 1.850 milljarðar kr. Þar af eru verðtryggðar skuldir um 1.400 milljarðar. Það var rangt af mér að gefa of miklar væntingar um að hægt yrði að frysta greiðslu verðtryggðra lána eða frysta höfuðstól miðað við ákveðna dagsetningu fyrir hrun bankanna. Engu að síður er starfshópur sérfræðinga á mínum vegum að skoða færar leiðir í þessu efni með það að markmiði að létta greiðslubyrði fólks af verðtryggðum lánum á meðan verðbólga er sem hæst og hef ég góðar vonir um að það geti tekist.

Hugmyndir sem fram hafa komið eins og að gera Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum kleift að eignast fasteignir fólks að hluta eða öllu leyti gegn leigu er einnig til skoðunar ásamt mörgum öðrum. Um er að ræða nokkrar athyglisverðar hugmyndir sem verið er að skoða í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og verður félagsmálanefnd væntanlega gerð grein fyrir því máli þegar við komum á fund nefndarinnar eftir helgi.

Þjónusta Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hefur verið efld en verkefni hennar er að aðstoða þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Mikilvægt er einnig að frumvarp um greiðsluaðlögun sem unnið er að komi sem fyrst í framkvæmd og verði að lögum fyrir jól.

Virðulegi forseti. Við verðum að gera allt sem við getum til að tryggja stöðu heimilanna í landinu og aðstoða fólk við að komast yfir erfiðasta hjallann. Í framhaldi af því skulum við einbeita okkur að því að byggja upp nýjan fasteignamarkað til framtíðar með hagsmuni almennings að leiðarljósi.