136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir áhyggjur málshefjanda, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, um aðstöðu fasteignaeigenda og ekki síst unga fólksins sem skuldar hvað mest í sínu húsnæði. Mig langar sérstaklega að ræða tvennt: Í fyrsta lagi almennt um greiðsluörðugleika því að við þingmenn heyrum dæmi um að fólk leitar til síns opinbera viðskiptabanka og fær vægast sagt mismunandi viðbrögð við greiðsluerfiðleikum sínum. Það fær jafnvel þau svör að það teljist ekki eiga í greiðsluörðugleikum þó að það sjái greinilega fram á það út frá því að starfshlutfall þess hafi verið minnkað, laun lækkuð, atvinnuástand ótryggt og afborganir af íbúðum farið stighækkandi svo ekki sé minnst á bílalán og önnur lán sem fólk er með. Það má segja að greiðsluörðugleikar virðast ekki vera skilgreindir á sama hátt eftir því hvert maður leitar. Það er auðvitað áhyggjuefni þegar við erum með þrjá opinbera viðskiptabanka. Það verður auðvitað að gæta jafnræðis gagnvart fólki og það skiptir mjög miklu að komið sé til móts við fólk sem er að reyna að taka á sínum málum í tíma. Það reynir að bregðast við og fær jafnvel þau svör að ekkert sé hægt að gera fyrr en í óefni er komið.

Þeir fasteignaeigendur sem eru með verðtryggð lán á eignum sínum horfa á eignarhlutinn minnka með hverri greiðslu en lánin hækka þar sem áhætta lánveitandans er engin en lántakandans öll. Ég held að nauðsynlegt sé að koma til móts við þá. Hæstv. ráðherra sagði að væntingar hefðu kannski verið of miklar en er ekki hægt að horfa til hærri vaxtabóta eða einhverra lagabreytinga til að hægt sé að kippa verðtryggingunni úr sambandi þetta tímabil þar sem við erum stödd í óvenjulegustu efnahagsaðstæðum Íslandssögunnar?

Ég vil minna á að húsnæði er hluti af íslenska velferðarsamfélaginu og það á að vera kappsmál okkar að fjölskyldur í landinu geti verið öruggar inni á sínum heimilum. Það á að vera forgangsverkefni okkar að styðja við fjölskyldurnar í landinu (Forseti hringir.) á meðan þetta gjörningaveður gengur yfir.