136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:55]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jónssyni og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir umræðu um málefni fasteignaeigenda. Þau hafa farið yfir erfiða stöðu húsnæðiseigenda og stöðu Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður tilheyrir C-hluta ríkisfjármála og er fyrst og fremst lánastofnun en ekki stofnun sem á að eiga eignir. Forsvarsmenn sjóðsins komu á fund fjárlaganefndar fyrir tveimur dögum og fóru ítarlega yfir þá stöðu og horfur sem sjóðurinn stendur frammi fyrir. Eigið fé Íbúðalánasjóðs var um síðustu áramót 20 milljarðar en tæpir 600 milljarðar voru skuldsettir.

Fyrir liggur að Alþingi samþykkti 6. október, neyðarlagadaginn, heimild handa Íbúðalánasjóði til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ekki þarf að leita samþykkis skuldara með slíkri yfirfærslu. Talið er í skýringum með lögunum að slík ráðstöfun geti reynst þáttur í nauðsynlegum aðgerðum við endurskipulagningu rekstrarfjármálafyrirtækja og er til að liðka fyrir fjármögnun. Því má telja ljóst af eðli skýringanna að lagaákvæðið snýr að hinni skuldsettu fjármálastofnun en ekki skuldsettum íbúðareigendum sem tóku lán í bönkunum. Enda er það svo þrátt fyrir að fjármálastofnanir hafi lánað 600 milljarða frá árinu 2004, 500 milljarða í verðtryggðum lánum og 100 milljarða í gengistryggðum lánum, eru þær ekki farnar að huga að sölu á skuldabréfunum. Ekkert hefur verið keypt yfir í Íbúðalánasjóð. Flækjustigið er mikið enda einhver hluti, hundruð milljarða, tengdir skuldabréfavafningum.

Það liggur líka ljóst fyrir að ef Íbúðalánasjóður á að kaupa stóran hluta af umræddum skuldabréfum þarf að gefa út 600 milljarða í íbúðabréfum á móti nema til komi afföll. Þannig þarf að tryggja samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins að Íbúðalánasjóður fái lánsfjárheimild upp á 600 milljarða og því er ljóst að það kemur ekki að öllu leyti úr ríkisbönkunum enda á yfirfærslan að liðka fyrir endurskipulagningu þeirra og lækka skuldsetningu bankanna. Þá má ekki gleyma því mikilvæga atriði að styrkja þarf um leið eigið fjárhlutfall Íbúðalánasjóðs um tugi milljarða og tryggja viðunandi CAD-hlutfall hjá sjóðnum.

Virðulegur forseti. Þetta var um málefni fasteignaeigenda sem vilja margir komast í skjólið hjá Íbúðalánasjóði enda fullur skilningur á því, en þetta eru ekki síður málefni okkar sem fjöllum um ríkisfjármálin á Alþingi. Ég hvet til þess að um þau sé fjallað af aga og festu og hv. þingmenn muni (Forseti hringir.) að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.