136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:57]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ræða hv. formanns fjárlaganefndar var afar athyglisverð því að hún færir okkur heim sanninn um hversu gríðarlegt vandamál hér er við að eiga í tölum talið. En á hinn bóginn tel ég að ræða hv. þingmanns hafi verið fullkomlega óskiljanleg fyrir hinn almenna fasteignaeiganda í landinu. (Gripið fram í.) Það er gott og blessað. Það sem ég vil benda á er ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna gagnvart því að skýra fyrir almenningi á einfaldan hátt hver réttarstaða hans er. Hver er réttarstaða íbúðareigenda í dag? Hvað fólu neyðarlögin í sér? Ég legg við hlustir þegar hæstv. ráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, segir að hún telji að það eigi að heimila Íbúðalánasjóði að taka yfir fasteignatryggðar skuldir sem bankarnir hafa verið að lána íbúðaeigendum en mér finnst eins og það sé ekki komið á hreint. Mér finnst margt í þessum málum enn þá svo óhreint að þó að við getum slegið um okkur með þeim tölum sem hv. formaður fjárlaganefndar getur gert og hann skilur — og kannski við hér sem lesum fjárlagafrumvarpið daginn út og inn — er ekki nóg að gert til að skýra stöðuna fyrir almenningi.

Við skulum líka tala um réttlæti. Almenningur krefur okkur nú um að fella niður verðtrygginguna. Við vitum að það er engin töfralausn því að um leið og við gerum það fellum við líka niður verðtrygginguna t.d. af lífeyrissjóðunum okkar. En þegar hæstv. félagsmálaráðherra segir okkur að gert sé ráð fyrir 40% lækkun raunverðs fasteigna hljótum við að spyrja: Er þá ekki eðlilegt að gera ráð fyrir 40% lækkun á verðtryggingunni á móti? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því? Ríkisstjórnin verður að tala skýrt við fasteignaeigendur þessa lands og gera það strax. Hún verður líka að svara spurningunum sem settar eru fram í afar athyglisverðri grein í Morgunblaðinu eftir Gylfa Zoëga og Jón Daníelsson. Ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin að heimila að hægt verði að lengja lán og bjóða upp á umbreytingu lána í eignarhlut húsnæðislánveitanda (Forseti hringir.) í fasteignum? Það fyndist mér afar skynsamlegt. Ég vil að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin svari því.