136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[14:02]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Menn tala um að það sé engin töfralausn til varðandi vanda íbúðareigenda en ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hafa hafið þessa umræðu. Í umræðunni hefur verið ruglað saman, ég veit ekki af hverju, að þegar verið er að tala um vanda íbúðareigenda þá kemur löggjöf um greiðsluaðlögun ekki sérstaklega að því máli. Vandi íbúðareigenda snýr fyrst og fremst að því sem hæstv. félagsmálaráðherra talaði um, þ.e. lækkun á raunverði fasteigna og hins vegar á móti hækkun á verðtryggðum lánum upp á 1.400 milljarða sem hvíla á fasteignunum. Þetta er vandinn.

Vandinn stafar af því að við höfum farið þá leið að hafa allt, allt öðruvísi lánakerfi en tíðkast nokkurs staðar annars staðar í veröldinni. Af hverju í ósköpunum ættu þeir sem taka lán á Íslandi að bera alla áhættu og horfa upp á eignir sínar brenna á meðan þeir sem veita lán eru bæði með axlabönd og belti og jafnvel eitthvað meira og hafa því alltaf borð fyrir báru? Það er nú einu sinni þannig að víðast hvar í veröldinni er það talinn vera áhættusamur atvinnuvegur að lána út fé en ekki þannig að þeir sem fá lánað eigi að taka alla áhættuna. Hér höfum við skipað þessu með öðrum hætti og það er óviðunandi.

Það er talað um að það eigi að gera eitthvað varðandi dráttarvexti. Það er ekki það sem er höfuðatriðið í dag. Höfuðatriðið sem varðar íbúðareigendur er að þeir búi við sambærileg lánakjör og fólk í okkar heimshluta, gjaldmiðil sem hægt er að treysta og lánakjör þar sem er miðað við ákveðnar vaxtaforsendur og ákveðinn grundvöll til að standa á en ekki þetta hringl og þá vitleysu sem við búum við í dag. Það verður að taka verðtrygginguna úr sambandi núna vegna þess að hún telur ekki rétt.