136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[14:20]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessu nánast fyrsta úrræði gegn því atvinnuleysi sem við búum nú þegar við og mun fara verulega vaxandi á næstu árum. Það hefur ekkert enn komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig bregðast eigi við atvinnuleysi t.d. með verklegum framkvæmdum sem unnt er að fara í strax. Það eina sem mér sýnist hafa verið gert er að hella olíu á eld atvinnuleysisins með 18% stýrivöxtum.

En hér er sem sagt gott mál á ferðinni — ég vil ítreka það — sem þó má að mínu mati og verður að gera enn betra í þágu þeirra sem hyggja á nám meðan á atvinnuleysi þeirra stendur.

Ég ætla ekki að fara hér út í efnisatriði frumvarpsins og vona að það gangi hratt og örugglega í gegnum nefndina. Ég vil þó setja spurningarmerki við 2. mgr. 1. gr. þar sem talað er um að hinn atvinnulausi sé að lágmarki í 50% starfshlutfalli. Ég velti því fyrir mér hvort þar ætti að vera einn þriðji hluti starfshlutfalls. Ég set líka spurningarmerki við gildistímann, 1. maí 2009, sem mér þykir boða nokkra bjartsýni því að ég hygg að þetta ástand, og eiginlega er það fyrirséð, muni vara talsvert lengur.

Þá vil ég víkja að því sem ég nefndi hér fyrst. Ég er sem sé eindregið þeirrar skoðunar að einnig eigi að breyta til bráðabirgða lögum um atvinnuleysisbætur í þágu þeirra sem fara í nám meðan verstu afleiðingar kreppunnar standa í næstu eitt til tvö ár. Í dag er það svo í lögunum um atvinnuleysistryggingar að nám er skilgreint sem 70–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt. Ég vek sérstaklega athygli á þessu verklega námi sem menn geta þá farið í og verið á atvinnuleysisbótum. Fari menn í nám umfram þetta hlutfall, lánshæft nám, eru þeir út af vinnumarkaði í skilningi laganna.

Í 14. gr. laganna kemur fram hvað sé virk atvinnuleit, þ.e. að viðkomandi hafi frumkvæði að starfsleit og sé m.a. reiðubúinn til að taka hvert það starf sem greitt er fyrir og hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara. Það útilokar einstaklinga sem fara í nám, hyggja á nám, ef þeir eru kallaðir til vinnu á miðri námsönn. Ég vil líka vekja athygli á því að ef um lánshæft nám er að ræða er lánið ekki borgað út fyrr en að lokinni önninni að uppfylltum námsárangri. Menn standa því illa að því leyti og verða að fara í dýr okurlán bankanna. Flestir námsmenn hafa þá farið í yfirdráttarlán sem eru hrein og klár okurlán.

Í lögunum eru líka önnur ákvæði en þessi sem þyrfti að víkja frá tímabundið. Það er í 15. gr. varðandi það að nám jafngildi ekki starfi í tímalengd. Ef maður stundar sex mánaða nám jafngildir það ekki tíma hjá Vinnumálastofnun nema sem svarar til þrettán vikna. Ég vil líka vekja athygli á því að í 25. gr. er beinlínis gert ráð fyrir að aðili sem stundi nám hverfi af vinnumarkaði þó svo að réttur hans megi geymast í næstu, að mig minnir, 36 mánuði.

Það er alveg hreint og klárt í 52. gr. laganna að hver sem stundar nám samkvæmt e-lið 3. gr., þ.e. 75–100% nám eins og ég nefndi áðan, er ekki tryggður á því tímabili. Þessu tel ég að þurfi að breyta til bráðabirgða og það er eingöngu í undantekningartilvikum, þegar námið er ekki lánshæft sem til tryggingar kann að koma. Ég ítreka að þeir sem eiga rétt á námslánum fá þau ekki fyrr en árangri er náð eftir önnina og þurfa að vera á okurlánunum sem ég nefndi áðan.

Ég tel mjög brýnt að tvinnaður verði saman réttur hins atvinnulausa til náms og atvinnuleysisbóta og ég hygg, hæstv. félagsmálaráðherra, að ekki eigi að tefja þann ásetning ráðherrans að ljúka málinu í nóvembermánuði sem ég get tekið undir að sé brýnt að gerist.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að forsætisráðherra boðaði hér í morgun breytingar á úthlutunarreglum LÍN og aukið námsframboð. Þá verður að bregðast við því strax og það verður best gert með breytingum á frumvarpinu í þá veru að námsaðstoðin, námsframboðið, úthlutunarreglurnar og atvinnuleysisreglurnar spili náið saman. Þannig að sá sem verður atvinnulaus og fer í nám eigi rétt á námslánum — ég get alveg eins kallað það námslaun — frá fyrsta degi.

Mönnum verður tíðrætt um finnsku leiðina sem kjarnaatriði í úrræðum gegn atvinnuleysinu sem mun fara vaxandi eins og ég sagði áðan. Finnska leiðin hefur reynst sársaukafull með 7% atvinnuleysi sem varir enn í Finnlandi, en hún verður ekki farin nema tryggja atvinnulausum greiðslur námslauna meðan þeir eru í námi og auðvitað er það svo að þegar menn fara í nám þá binda menn sig í heila önn eða tvær annir, heilan vetur.

Ég verð að segja að þetta er afar brýnt og ég nefni þar til hliðsjónar reynslu Færeyinga frá því upp úr 1990. Þá fluttu frá Færeyjum 10% íbúa og að langmestu leyti ungt fólk á aldrinum frá 20 ára til fertugs. Aðeins um helmingur þeirra mun hafa komið til baka. Þetta þýðir að hér á landi mundi við 10% atvinnuleysi flytja í brott ungt fólk á þessum aldri, um 20–35 þús. manns. Það atvinnuleysi sem blasir nú við og við höfum ekki séð nema að litlu leyti — ég hygg að 60–80% séu enn þá í pípunum fari fram sem horfir. Við verðum að gera allt til að koma í veg fyrir landflótta í kjölfar atvinnuleysisins. Íslenskt þjóðfélag er í allt annarri stöðu, það þekkir vart atvinnuleysi. Sú kynslóð sem er á milli tvítugs og fertugs í dag þekkir vart atvinnuleysi. En það er mesti bölvaldur þjóðarinnar. Það er allt betra en það, líka mikil verðbólga, líka óstöðugt gengi. Það er allt betra en atvinnuleysi og þær hörmungar sem fylgja því, ekki bara út af tekjum og öðru heldur hinar sálrænu afleiðingar þess sem ég þekki sjálfur af starfi mínu fyrir verkalýðsfélög. Einstaklingarnir missa hinn andlega móð og kraft til að sækja sér vinnu eftir nokkurra mánaða atvinnuleysi. Þeir missa uppburðinn og kraftinn og viljann. Það verður að hafa í huga

Hér höfum við breytingar sem ég legg til að gerðar verði og að félagsmálanefnd vinni, tækifæri til menntunar á námslaunum. Ég hygg og ítreka að afar brýnt sé að það sé gert. Í þessu sambandi vil ég líka ítreka, og bara í framhjáhlaupi, að það fannst mér mikið ólán og mikil ógæfa að héraðsskóli og framhaldsskóli sem átti að setja upp í Ólafsfirði skyldi vera sleginn af. Því þar var nákvæmlega tækifæri til að hleypa inn atvinnulausum einstaklingum á öllum aldri í skóla í heimabyggð sinni, heimahéraði. Það var sorgleg aðgerð að hæstv. menntamálaráðherra skyldi slá þann skóla af, hvort sem er til langs eða skamms tíma.

Ekki er hægt að tala eins og hæstv. forsætisráðherra gerir. Hann boðar aukið námsframboð í öðru orðinu þegar hæstv. menntamálaráðherra fellir niður menntunarúrræðin í hinu orðinu. Í því felast miklar þversagnir og gjörsamlega óþolandi. Ég ítreka að við höfum ekki séð nándar nærri allar afleiðingar kreppunnar í því atvinnuleysi sem fer í hönd.

Ég ætla að segja það hér að lokum, og minna á það, hæstv. félagsmálaráðherra, að það er grundvallarskoðun mín að nám sé vinna. Nám er vinna og ekkert annað. Það er sem sé afar brýnt og nauðsynlegt að félagsmálanefnd hugi að þessu og breyti lögunum á þann veg að unnt sé að fara í missirisnám eða einnar annar nám eða tveggja anna nám og vera engu að síður talinn virkur á vinnumarkaði.