136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[14:50]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér mjög mikilvægt mál við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífi þjóðarinnar, frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lög um Ábyrgðasjóð launa, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Hæstv. ráðherra kynnti málið ítarlega í upphafi þegar hún mælti fyrir því og sömuleiðis er málið vel skýrt út í athugasemdum með frumvarpinu og ástæðulaust að vera að fara yfir það, en mig langar aðeins að gera að umtalsefni nokkur atriði sem hafa komið fram í umræðunni.

Það er örugglega rétt að ástandið á eftir að versna, því miður, en því frekar þurfum við að vera tilbúin með lagabreytingar sem þessar og vera búin að breyta lögum áður en það gerist. Í umræðunni í dag hefur verið bent á ýmis atriði, t.d. nefndi ráðherrann að við ættum að þiggja ráð frá þjóðum sem hefðu reynslu af ástandi eins og við stöndum frammi fyrir í dag og þar hefur verið bent á Finna. Mig langar líka til að benda á að við þurfum líka að læra af mistökum þjóða sem hafa lent í svipuðum áföllum. Á fundi í gærkvöldi hjá kvennahreyfingu Samfylkingarinnar talaði Lilja Mósesdóttir og hún hvatti okkur til þess að skoða hvernig þjóðir eins og Argentína og fleiri tóku á slíkum málum og lagði ríka áherslu á að reyna að slá aldrei á vinnandi hönd. Það er einmitt það sem er verið að gera hér með þessum tillögum til lagabreytinga, að reyna að koma í veg fyrir að fleiri en ella lendi í atvinnuleysinu, það verði haldið ráðningarsambandi við sem flesta og að skert starfshlutfall gefi fólki kost á að fá atvinnuleysisbætur á móti.

Það hefur verið rætt um afturvirka gildistöku. Mér finnst full ástæða til þess að við skoðum það. Það hefur komið fram að hv. félags- og tryggingamálanefnd komi saman á eftir til að taka þetta mál fyrir og senda til umsagnar. Mér finnst full ástæða til þess að nefndin kalli eftir því hjá lögfróðum starfsmönnum þingsins hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að gildistakan verði afturvirk. Ég get ekki ímyndað mér að það sé eitthvað því til fyrirstöðu og það fólk sem lenti í atvinnuleysi um síðustu mánaðamót fengi þá atvinnuleysisbætur um næstu mánaðamót.

Allt er betra en atvinnuleysið, sagði hv. þm. Atli Gíslason og ég tek heils hugar undir það. Hann hefur talað um tillögur til námslauna, að líta svo á að nám sé vinna. Ég er fullkomlega sammála því, nám er vinna og ég tel rétt að við skoðum þessar tillögur. Ég veit ekki hvort við getum afgreitt þær núna ef við ætlum að hraða afgreiðslu þessa máls mjög en ég tel fulla ástæðu til þess að félags- og tryggingamálanefnd skoði slíkar tillögur. Þær mundu þá koma í kjölfarið ef ekki væru tök á því að afgreiða slíkar tillögur nú um leið og þetta mál verður afgreitt. Ég held að við getum hraðað þessu máli mun frekar en hv. formaður félags- og tryggingamálanefndar talaði um. Ef við sendum málið út í dag er hægt að kalla fólk til strax á mánudaginn til að ræða málið í nefndinni, það hefur verið gert áður. Menn hafa fundað fram á kvöld þegar mikið liggur við og það getum við auðvitað gert við núverandi aðstæður. Það ætti því alveg að vera hægt að afgreiða þetta mál strax í næstu viku eða eftir helgina ef vilji er fyrir hendi, það er ástæðulaust að vera að draga slíkt.

Varðandi námslaunin og það sem Atli Gíslason nefndi í þeim málum, tel ég fulla ástæðu til þess að við ræðum við Vinnumálastofnun og skoðum atriði sem varða sex mánaða námið og 13 vikurnar. Mér finnst full ástæða til þess að við skoðum alla þætti sem snúa að námsmönnum en auðvitað þarf það líka að koma inn á borð menntamálanefndar og ég óttast að það gæti ef til vill tafið þetta mál að einhverju leyti.

Varðandi umræðu um að þeir sem lenda í langvarandi atvinnuleysi, sem ég vona að verði ekki margir en ég óttast að einhverjir muni lenda í því, þá hefur verið rætt um að vera með skilyrði um eitthvert starfsnám. Ég hef nefnt það og viljað tala fyrir því að það sé ekki bara starfsnám heldur þurfi að hvetja fólk til athafna í atvinnuleysi, t.d. fyndist mér alveg koma til greina að hvetja til líkamsræktar og heilsuræktar. Það er alveg rétt sem komið hefur fram að atvinnuleysi, hvað þá langvarandi atvinnuleysi hefur mjög alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks bæði líkamlega og ekki síst andlega heilsu og þar er heilsurækt og líkamsrækt geysilega mikilvægur þáttur sem ég tel að við ættum að huga að hvort við getum ekki á einhvern hátt hjálpað fólki sem lendir í atvinnuleysi til þess að sinna heilsu sinni.

Hv. formaður nefndarinnar er ekki í salnum lengur, ég veit ekki hvort hann heyrir mál mitt, en ég mun mæta á fund á eftir hjá nefndinni og mun leggja þar til að við munum hraða þessu máli frekar en sá hv. þingmaður talaði um í ræðustóli. Ég get ekki ímyndað mér annað en að í nefndinni hljóti að vera sátt um að flýta þessu máli mjög, sambærileg þeirri sátt sem ríkir hjá Reykjavíkurborg um frekari framkvæmdir o.s.frv. Þetta er mál sem varðar okkur öll, þetta er mikið velferðarmál og mikið þjóðþrifamál. Við skulum því bara taka til hendinni og flýta því í gegn. Það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um réttindi launafólks, eins og komið hefur fram, og mikilvægt að haldið sé ráðningarsambandi við sem flesta sem lengst.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mál mitt lengra því að ég mun koma að þessu máli í félags- og tryggingamálanefnd og mun leggja ofuráherslu á að flýta afgreiðslu þess.