136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[15:14]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var ágætisræða hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Það er alveg rétt hjá henni að nú þarf að endurmeta alla hluti við þessar aðstæður og ég er svo sannarlega sammála henni um það. En mér fannst hún vera óþarflega viðskotaill vegna ummæla minna um fína tillögu frá hv. þm. Atla Gíslasyni, sem ég tók í rauninni undir og taldi rétt að félags- og tryggingamálanefnd skoðaði gaumgæfilega, þó að ég hefði einhverjar efasemdir um að við gætum kannski afgreitt hana um leið og þetta frumvarp. Ég tala bara af mikilli reynslu í nefndarstarfi hér og það tekur lengri tíma þegar breytingartillögur koma við frumvörp sem er ætlað að ganga hratt í gegn.

Auðvitað munum við skoða allar breytingartillögur sem koma fram í nefndinni, mér finnst það alveg fullkomlega eðlilegt og ef hægt væri að breyta þessu þá er það fínt vegna þess að þetta eru góðar tillögur og mikilvægar. En það er alveg ástæðulaust að verða svona hvumpin við því að ég nefni hér að það taki kannski lengri tíma en við höfum til að samþykkja slíkar breytingar, því að það þarf að hafa samráð við fleiri, það þarf að hafa samráð við menntamálaráðherra, ráðuneytið, menntamálanefnd o.s.frv. Aftur á móti ætti okkur að takast að afgreiða frumvarpið eins og það liggur hér fyrir mjög fljótt og vel og ég efast ekki um að við gætum afgreitt það strax eftir helgina, á mánudag eða þriðjudag, ef menn leggja á sig þá vinnu sem þarf til í nefndinni. Ég vildi bara nefna það hér, virðulegi forseti, að svona er gangur mála í þinginu og það tekur tíma að vinna málin, sérstaklega þegar nýjar breytingar koma inn. Ég hef langa reynslu af því.