136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[15:28]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þeim einhug sem virðist ríkja í þingsalnum um þetta mál og umfjöllun um það og þeim áhuga sem fram kemur hjá þingmönnum í þessu mikilvæga máli og vilja til þess að það gangi hratt fyrir sig hér á þinginu. Ég tók eftir að stjórnarandstaðan nefndi að hún hefði átt að koma fyrr að málinu og sjálfsagt má taka undir það en málið hefur ekki haft mikinn aðdraganda. Það var byrjað að vinna að því um miðjan okóbermánuð með því að nefnd á mínum vegum sem er starfandi með aðilum vinnumarkaðarins samdi frumvarpið en hugmyndir að því voru fyrst kynntar á ASÍ-þingi. Stjórnarflokkarnir hafa því alls ekki haft mikinn tíma til þess að fjalla um málið. Þetta var t.d. afgreitt í Samfylkingunni á einum og sama fundinum og ég held að líkt hafi átt sér stað varðandi Sjálfstæðisflokkinn.

Ég get tekið undir nánast allt sem hefur komið fram í þeim umræðum sem hér hafa farið fram. Það er eitt atriði sem mér finnst hafa skinið í gegn hjá ræðumönnum og það er að samábyrgð er lykilatriði nú í samfélaginu, í atvinnulífinu sem annars staðar, og ég höfða auðvitað, eins og margir hafa gert, til félagslegrar skyldu atvinnurekenda um að ganga ekki hart að starfsfólki að því er varðar starfsréttindi fólks. Við erum á mjög viðkvæmum tímum og það er allt satt og rétt sem hér hefur komið fram, t.d. hjá hv. 7. þm. Suðurk., Atla Gíslasyni og fleirum, að fólk sem missir vinnu sína, ég tala nú ekki um ef það er til einhvers langs tíma, á mjög erfitt með að fóta sig í lífinu og koma út á vinnumarkaðinn aftur. Um það er rætt að unga fólkið muni við þessar aðstæður og það sem við blasir kannski flýja land og maður má auðvitað ekki til þess hugsa. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir það og þar skiptir auðvitað vinnumarkaðurinn og atvinnulífið mestu máli og síðan það mál sem við ræddum hér fyrr í dag sem eru húsnæðismálin.

Það hefur verið minnst á námsmenn og rétt þeirra sem ég ætla aðeins að fara yfir og eins varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ef ég tek námsmennina fyrst er auðvitað mjög mikilvægt að við skoðum stöðu þeirra við þær aðstæður sem nú eru í atvinnulífinu en við þurfum að átta okkur á að það er ekki hægt að leggja allt á Atvinnuleysistryggingasjóð, við verðum líka aðeins að draga mörkin. Það eru fleiri framfærslukerfi, ef nota má það orð, en Atvinnuleysistryggingasjóður, t.d. Lánasjóður námsmanna. Það má vel vera að það þurfi að skoða meiri sveigjanleika í því kerfi alveg eins og við erum að skoða það núna að því er varðar atvinnuleysiskerfið. Námsmenn sem stunda lánshæft nám sækja framfærslu sína til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hafa þá ekki verið taldir tryggðir innan Atvinnuleysistryggingasjóðsins en hins vegar hafa atvinnulausir átt þess kost að stunda styttra starfstengt nám svo sem hjá símenntunarmiðstöðvum og verið á atvinnuleysisbótum á sama tíma og það er einmitt það sem við erum að skoða núna í félagsmálaráðuneytinu. Það er svona eins og stundum er nefnt varðandi þennan þátt náms „annað tækifæri til náms“ að við erum að skoða þetta mál að því er varðar tengingu atvinnuleysistryggingakerfisins og námsmanna sem eru í starfstengdu námi eins og hjá símenntunarmiðstöðvum, hvort það sér hægt að auka eitthvað sveigjanleika þar og það er hægt að gera með reglugerðarbreytingu. Ég tel auðvitað sjálfgefið að nefndin skoði stöðu námsmanna að því er þetta varðar og þá eftir atvikum líka að því er varðar aðra námsmenn, eins og hér hefur verið nefnt. Það er afar mikilvægt að við höldum unga fólkinu okkar hér á landi og að það flýi ekki land við þær aðstæður sem nú eru.

Ef við erum að sigla inn í það mikla atvinnuleysi sem talað er um þá er auðvitað ekki hægt að leggja það á Atvinnuleysistryggingasjóð nema með því að setja inn í hann verulega aukið fjármagn. Það er áætlað að eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs verði um næstu áramót kannski 16–17 milljarðar en miðað við 7% atvinnuleysi, sem er spáð af Vinnumálastofnun nú í janúar, mundi það að óbreyttu — þá erum við ekki að taka tillit til þessa frumvarps — kosta um 23–24 milljarða kr. en þá er líka verið að horfa til þess að allar þær hópuppsagnir sem hafa komið fram gangi eftir. Ég leyfi mér hins vegar að vona að eitthvað af þessum uppsögnum sem hafa skilað sér inn í Vinnumálastofnun gangi til baka, að atvinnurekendur hafi verið að tryggja sig fyrir fram til þess að meta betur stöðuna og sjá hverju fram vindur, maður vonast til þess að eitthvað af þessu gangi til baka.

Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi líka að með þeirri leið sem við erum að fara séu miklar líkur á því að hægt sé að spara, þessi leið vinnur ekki einungis að því að halda fólki virku á vinnumarkaðnum heldur getur hún líka sparað. Ef við miðum t.d. við 5% atvinnuleysi þá getum við sparað verulega peninga. Ef 25% af þeim sem eru atvinnulausir nýta sér hlutabæturnar og ef miðað er við að hlutabætur verði t.d. 50% af bótum þá sparast 300 millj. kr. fyrir hvert prósent í atvinnuleysi og hvert prósent í atvinnuleysi er um 3,4 milljarðar kr. ef þetta er nýtt eins og upp er lagt með og ekki farið út í að misnota sér kerfið. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi einnig hversu viðkvæmt þetta kerfi er fyrir misnotkun og ég ætla ekkert að draga það í efa en við hljótum, eins og ég sagði áðan, að höfða til samábyrgðar atvinnurekenda, að það verði unnið með þetta kerfi og tillögur, ef að lögum verða, eins og til er ætlast. Auðvitað verður haft eftirlit með þessu alveg frá byrjun hvernig þetta virkar og það er m.a. ástæðan fyrir því að farið verður í endurskoðun í maímánuði og þá finnast mér meiri líkur en minni á því, ef þetta gengur eftir eins og upp er lagt með, að þetta verði framlengt.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að dvelja mikið lengur við þessa umræðu. Ég vil þó taka fram varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga, sem hv. 4. þm. Norðvest. nefndi, að þá get ég upplýst um það að í félagsmálaráðuneytinu er verið að skoða stöðu þeirra sérstaklega og þá hvort og með hvaða hætti unnt er að auka sveigjanleika kerfisins gagnvart þeim hópi. Ég tel að þetta sé eitt atriðið sem hv. félags- og tryggingamálanefnd eigi að skoða sérstaklega, þ.e. sjálfstætt starfandi einstaklingar og einyrkjar. Ég hef orðið vör við núna að þeir geti lent í miklum erfiðleikum því að þeir geta ekki tekið að sér tilfallandi verkefni, þá missa þeir rétt sinn til atvinnuleysisbóta og sjálfstætt starfandi einstaklingur sem stöðvar rekstur sinn og hefur störf hjá öðrum vinnuveitanda í hlutastarfi getur nýtt sér þennan sveigjanleika en ekki annars. Það má því vera að það þurfi að skoða það alveg sérstaklega ásamt því að fara yfir það sem fram hefur komið varðandi námsmennina.

Varðandi það að fara neðar með hlutfallið en 50% þá er málið í höndum nefndarinnar og hún skoðar hvort það er eðlilegt en þetta var niðurstaða SA og ASÍ og félagsmálaráðuneytisins að það væri rétt að fara þá leið að miða við 50% hlutfall og líta á það sem framlag vinnuveitandans í þessu efni, það yrði þá um að ræða 50% hlutfall sem atvinnurekendur tækju en á móti kæmi 50% úr Atvinnuleysistryggingasjóði. En þetta er auðvitað allt í höndum nefndarinnar.

Ég ítreka þakklæti mitt, virðulegi forseti, fyrir þann einhug sem hér hefur komið fram varðandi framgang þessa máls og það er einlæg von mín að þegar þetta frumvarp verður að lögum virki það eins og til er ætlast og þingmenn hafa talað fyrir.