136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[15:40]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það að ég leggst ekki gegn einu eða neinu sem verður til þess að bæta þetta frumvarp, svo fremi að við teljum að við getum staðið undir því og það sé eðlilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi þær skyldur á sínum herðum.

Hv. þingmaður nefnir heimildir inn í frumvarpið sem mér skildist á hv. þingmanni að væru þá til bráðabirgða, það yrði skoðuð undanþága frá námsskilyrðum laganna og að þetta verði til bráðabirgða. Ég tel alveg sjálfsagt að skoða það og sjá hvaða útfærslu menn eru með í því efni. Ég mun óska eftir því við ráðuneyti mitt að þetta verði skoðað og þá í samráði við SA og ASÍ sem eru höfundar að frumvarpinu. Allt sem er til bóta og gerir frumvarpið betur úr garði í því skyni að minnka atvinnuleysið er ekkert annað en jákvætt.