136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[15:43]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kýs að nýta mér rétt til andsvara af því að ég hreinlega gleymdi því áðan að spyrja hæstv. ráðherra um þann mismun sem er gerður í frumvarpinu annars vegar hvað varðar Ábyrgðarsjóð launa og hins vegar hvað varðar lögin um atvinnuleysistryggingar.

Það segir í 1. gr. að ákvæði 1. og 2. mgr. séu bundin því skilyrði að hinn tryggði hafi misst starf sitt að hluta vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda, en í lokamálsgreininni í 2. gr. segir að ákvæði hvað varðar Ábyrgðarsjóð launa gildi: „um kröfur launamanna sem minnka starfshlutfall sitt á tímabilinu 1. október 2008 til og með 31. desember 2009 að kröfu vinnuveitanda“ — að kröfu vinnuveitanda — „vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem rekja má til sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.“

Hvernig hefur hæstv. ráðherra hugsað sér sönnunarbyrðina í þessu efni? Er ekki hætt við að hún geti orðið mönnum erfið þegar komið er inn í gjaldþrotið?