136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:12]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnast þetta vera mjög óljós svör. Munu lögin um opinber hlutafélög gilda um þessa banka eða lögin um fjármálafyrirtæki? Þetta eru opinber hlutafélög (AtlG: Og stjórnsýslulögin.) — og stjórnsýslulögin. Ég segi hér, frú forseti, að mér finnst mjög óviturlegt, svo vægt sé til orða tekið, að ætla að fara með hina nýju banka af stað á forsendum og grundvelli hinna gömlu laga sem hafa þegar leitt okkur út í þann ófarnað sem við stöndum frammi fyrir. (GAK: Alls ekki gáfulegt.) Það er mjög ógáfulegt og ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða það. Alþingi á að setja þessum nýju bönkum lög þar sem bæði stjórnsýslulög og upplýsingalög gilda og ljóst er hver eigi að vera áfram þegar fram líða stundir, viðskiptabankar og fjárfestingarsjóðir.

En af því að hæstv. ráðherra vék að sparisjóðunum vil ég spyrja hv. þingmann hvað er að gerast í málefnum þeirra. Það þarf einnig að breyta lögunum um sparisjóði til þess að koma í veg fyrir að þeir geti haldið áfram á sömu braut eins og sumir fóru í hlutafélagavæðingu og síðan í brask, uppgjörs er þörf þar. Sumir sparisjóðir fóru ekki þessa leið og standa vel en aðrir gerðu það hins vegar og standa höllum fæti. Ég hef ítrekað flutt tillögur á Alþingi um lagabreytingar sem tryggi sparisjóðunum lögvarinn rétt á heitinu „sparisjóður“ þ.e. þeim sparisjóðum sem fylgdu hinni raunverulegu sparisjóðahugsjón og grunni hennar. Ég tel að styðja eigi við sparisjóðina á þeim grundvelli en ekki öðrum. (Forseti hringir.) Það þarf að grípa strax til aðgerða gagnvart sparisjóðunum og tryggja þeim framtíð á þessum grunni. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvað sé að gerast í þeim efnum.