136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

ásakanir um spillingu í fjármálakerfinu.

[15:14]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmanni er frjálst að taka upp hvaðeina sem hann vill í þingsölum. Ég veit ekki hvort ég er rétti maðurinn til að svara þessu en ég get þó sagt að ég er sammála hæstv. menntamálaráðherra um að setja á allt upp á borðið og það á að skoða allt. Þau málsatvik sem hv. þingmaður rakti hér um að 3 þúsund milljónir hefðu verið teknar, að því er ég skildi hjá hv. þingmanni eins og í fréttum, í heimildarleysi og jafnvel á skjön við lög út úr hlutafélagi og færð til útlanda til þess væntanlega að standa þar í einhvers konar gróðabralli, er auðvitað mál, eins og það ber að mér, með þeim hætti vaxið að það hlýtur að verða skoðað af þar til bærum yfirvöldum og eftir atvikum rannsakað og ef tilefni er til þess að gefa út ákæru verður það gert. Ég er þeirrar skoðunar að lögmál réttarríkisins verða að gilda og ég er þeirrar skoðunar að enginn er sekur fyrr en búið er að rannsaka og fella dóma um hans sök. En það sem hv. þingmaður nefnir hér er auðvitað tilefni til rannsóknar. Ég er honum sammála um það.

Að því er varðar það mál sem tengist þeim banka sem hv. þingmaður nefndi og fjallar um það að menn hafi fengið felldar niður ábyrgðir vegna hlutabréfakaupa, þá vill svo til að hæstv. dómsmálaráðherra hefur kynnt það í þessum sölum að hann hyggist flytja frumvarp um sérstakt embætti saksóknara til að skoða mál sem tengjast bönkunum. Það mál hefur verið rætt í ríkisstjórninni, það frumvarp hefur verið samþykkt þar. Það hefur verið samþykkt í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna og það er partur af þeirri allsherjarrannsókn sem þingheimur allur er sammála um að verður að fara fram á tildrögum þeirrar skelfilegu atburðarásar sem riðið hefur yfir. Ég er sammála hv. þingmanni um að það á ekkert undan að draga, allt þarf að koma upp á borðið, sama í hvaða stöðu menn eru.