136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

samvinna í efnahagsmálum.

[15:19]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það má auðvitað segja að hæstv. forsætisráðherra er ekki í öfundsverðri stöðu og öll spjót standa eðlilega á honum. Forsætisráðherra heldur nokkuð ró sinni. Auðvitað er mjög mikilvægt að segja satt og ná mjög góðu sambandi við þjóðina við þessar aðstæður. Mér finnst vanta töluvert á í þeim efnum og bið hæstv. forsætisráðherra að skoða betur hvernig það er hægt því að við þurfum að ná þjóðinni saman. Ef við náum þjóðinni ekki saman getur Ísland brotnað. Við eigum í miklu alvarlegi átökum en nokkru sinni fyrr sem stafar af offari nokkurra manna á Íslandi en við verðum að axla þessa ábyrgð.

Ég verð þess var að úrræðin eru fá, stefnan er ekki skýr. Ég hef oft talað um það á síðustu vikum að hér þurfi að móta þjóðarsáttarborð. Við þurfum að setjast yfir það stóra verkefni að móta endurreisnaráætlun fyrir Ísland. Það er svo margt hrunið, það er svo margt erfitt. Það væri styrkur fyrir hæstv. forsætisráðherra að koma sér upp slíku sáttaborði. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra vera einstæðingur í öllu þessu, í ríkisstjórn sinni, hann þurfi á breiðari sveit að halda á bak við sig, mönnum úr öllum flokkum, mönnum frá atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni, og það er því miður ekki á borðinu.

Svo kemur í ljós að margt af því sem gagnrýnt hefur verið harðast virkar ekki. Ég nefni það að við framsóknarmenn gagnrýndum 50% hækkun á stýrivöxtum. Það gerðu einnig aðilar vinnumarkaðarins og sögðu að hún væri nánast glæpsamleg við þessar aðstæður. Nú hefur komið í ljós að þó að þríhliða samkomulag hafi verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur þessi vaxtahækkun fellt gengið enn þá meira. Hún hefur sett okkur í enn þá verri stöðu. Það sem við þurfum nú að glíma við er ekki eftirspurnarverðbólga heldur er hrun heimilanna, (Forseti hringir.) hrun atvinnulífs og mikið atvinnuleysi þannig að úrræði þeirra hagfræðinga sem bentu á aðrar leiðir eru ekki uppi á borðinu hjá þessari ríkisstjórn, því miður.