136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

samvinna í efnahagsmálum.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil nú taka undir eitt og annað í máli hv. þingmanns og vissulega eru markmið okkar þau sömu. Það sem við viljum gera í stöðunni er ekki svo frábrugðið óháð því í hvaða stjórnmálaflokki menn eru, hvorum megin sem menn eru við ríkisstjórnarlínuna.

Við þurfum að kappkosta að milda það högg sem heimilin og fyrirtækin verða fyrir við núverandi aðstæður, reyna að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi og snúa bökum saman, eins og hv. þingmaður sagði, og þjappa þjóðinni saman eftir því sem hægt er. Það er ábyrgðarhluti þegar menn reyna að sundra fólki við núverandi aðstæður eða egna fólk til óþurftarverka.

Ég tel að þingmenn allir hafi mjög ríkar skyldur og fagna því sem kom fram bæði hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni og hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í umræðunni fyrr í dag að þeir vilji leggja sitt af mörkum til þess að leysa vandamálin, hjálpa til við það frekar en hitt. Við vinnum saman að því að búa til þingmál til þess að setja af stað rannsókn á málunum. Mér finnst ég ekki vera neinn sérstakur einstæðingur í því máli og reyndar ekki almennt séð því að við vinnum öll vel saman í ríkisstjórninni að því að leysa aðsteðjandi vanda.

Það þarf breiða fylkingu og það er hárrétt hjá hv. þingmanni að aðilar vinnumarkaðarins skipta hér miklu máli. Við erum í mjög góðu samstarfi við þá sem mun aukast ef eitthvað er, verða enn meira á næstunni. Ég veit að hv. þingmaður fagnar því.