136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

Búðarhálsvirkjun.

[15:25]
Horfa

Rósa Guðbjartsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í þeim áföllum sem dynja yfir íslenskt atvinnulíf er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að nýta auðlindirnar og öll þau tækifæri sem eru fyrir hendi til atvinnuuppbyggingar í landinu. Við þurfum að sækja fram á tímum sem þessum.

Í dag berast fréttir af því að Landsvirkjun hafi ákveðið að útboðum í Búðarhálsvirkjun, sem opna átti bráðlega, verði frestað í fjóra til fimm mánuði. Sú ákvörðun eru óneitanlega vonbrigði enda hefur sú framkvæmd gefið verktökum von um ný atvinnutækifæri. Ákvörðunin getur hugsanlega einnig haft áhrif á aðra atvinnuuppbyggingu eins og stóriðjuuppbyggingu. Álverið í Straumsvík er til að mynda með í undirbúningi að auka framleiðslugetu fyrirtækisins um 40 þús. tonn innan þeirra bygginga og skipulags sem ríkir á svæði álversins og hefur undirbúið að framkvæmdir geti hafist við fyrsta tækifæri. Sú framleiðsluaukning var ákveðin til að tryggja áframhaldandi rekstur álversins í Straumsvík í kjölfar þess að enn frekari stækkunaráform voru felld með minnisstæðum hætti í Hafnarfirði fyrir einu og hálfu ári þegar ekki þótti þörf á þeim auknu atvinnutækifærum sem álversstækkunin hefði haft í för með sér.

Hugsanlega getur töfin á Búðarhálsvirkjun haft áhrif á fyrirhugaða framleiðsluaukningu í Straumsvík. Því vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann telji að frestunin muni hafa áhrif á áform álversins núna um áætlaða 40 þús. tonna aukningu á framleiðslugetu og hvernig hann sjái þá fyrir sér að álverið í Straumsvík fái næga orku til fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar.