136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

frestun framkvæmda í samgöngumálum.

[15:31]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég beini spurningu til hæstv. samgönguráðherra vegna frétta í Ríkisútvarpinu 4. nóvember síðastliðinn þar sem segir svo að samgönguráðuneytið hafi framsent í síðustu viku til Vegagerðarinnar bréf frá fjármálaráðuneytinu þar sem fram komi að ekki skuli efnt til neinna nýrra útgjaldaskuldbindinga þar til áætlanir um ríkisfjármálin hafi verið endurskoðaðar. Í framhaldinu er svo viðtal við Hrein Haraldsson vegamálastjóra. Þar kemur fram að fresta á útboðum á vegaframkvæmdum sem voru inni á samþykktum fjárlögum þessa árs og voru meira að segja að hluta til hluti af flýtiframkvæmdum sem ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir í kjölfar síðustu kosninga fyrir rúmu einu og hálfu ári. Ég tel að fjármálaráðherra hafi ekki heimild til að gefa slíka tilskipun út. Ef hann vill breyta einhverju frá gildandi fjárlögum ber honum að koma með slíkt inn í þingið og það fjallar um það og tekur afstöðu til þess.

Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort það hafi verið gert í samráði við hann að senda út bréf með þessum hætti, að slá á framkvæmdir sem Alþingi samþykkti á síðasta vetri að farið væri í, og eins hvort farið hafi verið ofan í saumana á því á hverju þetta bitnar. Ég bendi á að samkvæmt upplýsingum vegamálastjóra verður t.d. vegur á Barðaströnd skorinn niður nú í stað þess að vera boðinn út en sami vegur var líka skorinn niður vegna þenslu fyrir nokkrum árum. Sumir landshlutar eru því skornir niður bæði í þenslu og líka í kreppu. Er þetta sanngjarnt?

Enda þótt huga megi í sjálfu sér að því að draga eitthvað úr framkvæmdum (Forseti hringir.) eru ákveðnar framkvæmdir samþykktar á fjárlögum og þeim má ekki breyta nema með samþykki þingsins.