136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

frestun framkvæmda í samgöngumálum.

[15:33]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að öll ráðuneytin fengu bréf frá fjármálaráðuneytinu þar sem þess var óskað að engar miklar fjárskuldbindingar væru settar fram á meðan við göngum í gegnum krísuna eftir hrun fjármálakerfisins og förum í gegnum fjárlög og annað slíkt. Þetta barst til allra ráðuneyta og þurfti í raun og veru ekki slíkt bréf til vegna þess að þetta er auðvitað sjálfsögð ráðstöfun hjá öllum ráðuneytunum í framhaldi af þeim miklu breytingum sem dunið hafa yfir íslenska þjóð. Og þannig er það með útboð Vegagerðarinnar. Þau örfáu verk sem voru að verða tilbúin vegna hönnunar og undirbúnings og voru að komast á það stig að geta farið í útboð, stoppuðum við líka öryggisins vegna. Við vildum ekki senda útboðin út, opna tilboðin og þurfa svo ef til vill að hætta við þau vegna þess að skorið verði niður til samgönguframkvæmda, munandi hvernig fór með útboð á Héðinsfjarðargöngum á sínum tíma. Það mál er nú hjá dómstólum vegna þess að hætt var við það. Mér finnst því ekkert óeðlilegt við það, virðulegi forseti, að þetta sé gert en hvaða verkefni það svo verða, ef til þess kemur, er allt annar handleggur.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi sem dæmi um verkefni sem við vorum komin með og vildum helst geta boðið út en var þó ekki alveg tilbúið til útboðs, þ.e. framkvæmdir á Barðaströnd. Þá er ég ekki að tala um framkvæmdir sem líka hafa beðið mjög lengi og eiga ekkert skylt við það ástand sem er í þjóðfélaginu, en við höfum ekki getað boðið út vegna þess að ákveðin verk eins og t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum, vegur um Teigsskóg og þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar, þar sem fjármagn hefur verið til í langan tíma eru stopp út af því að kærumál eru í gangi (Gripið fram í: Út af náttúruspjöllum.) sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar (Forseti hringir.) með fullum stuðningi vinstri grænna eins og hér hefur komið fram.