136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

frestun framkvæmda í samgöngumálum.

[15:36]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Fyrst vil ég benda á að bréfið sem hér um ræðir og sent var frá fjármálaráðherra til Vegagerðarinnar í gegnum einstök ráðuneyti hefur ekki borist fjárlaganefnd og þótt kallað hafi verið eftir því hefur það ekki borist nefndinni. Þetta er bara dæmi um það hvernig framkvæmdarvaldið telur sig geta hunsað algjörlega samþykktir Alþingis og þingnefndir sem fjalla eiga um mál ef gera á breytingar á samþykktum fjárlögum innan ársins. Þetta vildi ég benda á. Ég hef einnig upplýsingar um að það eru bæði stór og lítil verk sem hefur dregist að kæmust í útboð og til framkvæmda sem verða líka stöðvuð. Það getur ekki verið vilji eða stefna ríkisstjórnarinnar eða Alþingis að ætla að setja hér allt fast. Og af því að hann nefndi Vestfirði og veginn um Barðaströnd, veginn sem var einmitt frestað fyrir þremur árum vegna (Forseti hringir.) þenslu á höfuðborgarsvæðinu og á nú aftur að skera niður vegna kreppu, ja, blessað fólkið sem (Forseti hringir.) verður að taka á sig syndir beggja.