136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[15:39]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. „Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref.“ Þessi orð sem eru úr kvæði er Ólafur Kárason skáld yrkir í sögunni Heimsljós eftir Halldór Kiljan Laxness eiga nú vel við.

Já, það eru erfiðir tímar og atvinnuþrefið mun aukast. Margir eru nú atvinnulausir og gjaldeyrisskortur er mikill. Eitt þeirra verkefna sem blasa við þjóðinni er að auka gjaldeyristekjur með aukinni framleiðslu. Hvar sem við sjáum möguleika og tækifæri til að framleiða vöru sem gefur tekjur og atvinnu skulum við gera allt sem við getum til eflingar.

Ein sú grein sem við ættum að horfa mjög til er þorskeldi, bæði til atvinnusköpunar og verðmætaaukningar. Framleiðsla á eldisþorski er farin að taka nokkrum stakkaskiptum og hefur þróast á nokkuð jákvæðan hátt frá því að brautryðjendur eins og Magnús Guðmundsson frá Tungu í Tálknafirði hófu tilraunir með eldi á þorski. Það eru full rök fyrir því að vel sé í lagt hvað þessa atvinnugrein varðar og ekki skal það vanþakkað sem gert hefur verið bæði af hálfu ríkis og einstakra fyrirtækja sem jafnvel hafa tapað miklum fjárhæðum vegna ófyrirséðra vandræða eða uppákomum í náttúrunni.

Frú forseti. Á 128. löggjafarþingi var samþykkt að vísa til ríkisstjórnarinnar þingsályktunartillögu um þorskeldi sem hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hlutast til um að skipulegar rannsóknir á þorskeldi frá klaki til slátrunar verði stórauknar, svo og að fjarða- og kvíaeldi á þorski verði eflt og stutt, með það að markmiði að Íslendingar geti framleitt eldisþorsk til útflutnings innan fárra ára.“

Fyrir fimm árum flutti ég þessa tillögu ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar og var það mikið fagnaðarefni að hún skyldi fá afgreiðslu. Með slíka samþykkt Alþingis í höndunum er hæstv. sjávarútvegsráðherra heimilt, skylt og í lófa lagið að hlutast til um að leggja aukið fé í þessa grein. En mikilvægt er að allt regluverkið í kringum greinina verði skýrt sem og að hún þróist ekki í það að vera á einni hendi eða mjög fárra því að reynslan hefur kennt okkur að ekki sé skynsamlegt að hafa öll sín egg í einni og sömu körfunni. Þær tilraunir og sú vinna sem t.d. hefur verið unnin vestur á fjörðum er mjög góð og kemur í ljós að varan sem þorskeldið gefur þar af sér er í hæsta gæðaflokki.

Eitt enn sem mælir með auknu þorskeldi er krafa margra kaupenda sem vilja frekar höndla með eldisþorsk frekar en villtan af umhverfissjónarmiðum. Þetta hafa dæmin sannað. Síðan má ekki gleyma því að við eigum tæki og þekkingu til að fullvinna þessa afurð auk þess sem við höfum þekkingu á þessum markaði.

Mjög mikilvægt er að við komum á stofn fræðasetri þorskeldis. Ég tel einsýnt að það verði staðsett þar sem þorskeldið er nú hvað öflugast í landinu, vestur á fjörðum. Í tengslum við það er mjög brýnt að auka seiðaframleiðslu, efla þróun í gerð kvía, fóðurs og rannsókna á umhverfisáhrifum sem og að fara í það að semja reglur um allt umhverfi þorskeldisins.

Frú forseti. Ef við bætum nú verulega í ættum við að geta framleitt sem samsvarar afla nokkurra skuttogara innan fárra ára og það munar svo sannarlega um minna en það.

Mig langar í lok þessara orða minna að þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að þekkjast ósk mína um þessa umræðu og vil spyrja hann eftirfarandi spurninga: Hvernig sér ráðherrann fyrir sér fræðasetur um þorskeldi í framtíðinni? Hver eru áform ráðuneytis hans um þorskseiðaframleiðslu? Hvað telur ráðherrann að framleiða megi mörg tonn af þorski með þorskeldi á næstu 7–10 árum?