136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[15:56]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. og frummælanda, Karli V. Matthíassyni, fyrir þessa umræðu og ráðherra og öðrum sem hafa tekið þátt í að miðla upplýsingum um þessi mál. Ég vil, með leyfi forseta, vísa til mjög umfangsmikillar umræðu og greinargerðar og efnisskrifa í Fréttablaðinu sl. vor, dagana 6.–10. mars. Þar var fjallað ítarlega um þorskeldi og farið í gríðarlega umfangsmikla úttekt á þorskeldismálum og þá sérstaklega nefnt ýmislegt sem er að gerast í Noregi. Norskir fiskeldismenn stefna á að framleiða gríðarlegt magn af eldisþorski innan áratugar og áætlanir næstu sjö ára hljóða upp á að framleiða meira en Íslendingar veiða af villtum þorski í dag. Veiðar á þorski í Atlantshafi hafa dregist saman um hundruð þúsunda tonna á nokkrum áratugum. Árið 1980 voru veiddar 2 milljónir tonna í Norður-Atlantshafi en veiðin nú er áætluð 750 þúsund tonn. Við þekkjum öll hvað við Íslendingar veiðum mikið af því.

Veiðiráðgjafarsvið Hafrannsóknastofnunar segir að ekki sé að vænta neinnar aukningar í þorskveiðum á næstu fimm árum. Það eru hins vegar deilur um slíkt og í ljósi þess tel ég við að verðum að nýta okkur krafta þeirra sem stundað hafa fiskeldi, þ.e. í löndum þar sem þorskveiði hefur tíðkast í stórum stíl. Og það er almennur vilji á þinginu til að gera það.

Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að eldismálin eru áhættusækin. Við höfum hins vegar Hafrannsóknastofnun og ýmsar aðrar rannsóknastofnanir, einkaaðila, til að taka þátt í því með okkur. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra segir að við eigum að nýta okkur þekkingu norskra fiskeldisfyrirtækja og að þau taki þátt í þessu verkefni með okkur (Forseti hringir.) en um leið að stjórnvöld taki þátt í verkefnistengslum við seiðaeldi, grunngerðina og að fylgja eftir þessu góða máli.