136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[15:58]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu. Það er ljóst að við munum horfa til þorskeldis hér á landi sem framtíðaratvinnugreinar. Það er aðeins spurning um hversu hratt við getum þróað hana til að verða arðbær. Töluverðar rannsóknir, þróun og kynbætur eiga eftir að fara fram til að þorskeldi geti orðið samkeppnishæft.

Í heimsókn sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar til Vestfjarða nú í haust sem var mjög vel undirbúin af heimamönnum var okkur kynnt staða þorskeldis og rannsókna þar vestra. Vestfirðingar eru svo heppnir að þeir hafa fengið vel menntað fólk til að stunda þessar rannsóknir í samstarfi margra aðila, Matís, Hafró og ekki síst sjávarútvegsfyrirtækjanna og við urðum sannarlega vör við mikinn kraft og áhuga þar. En ég vil einnig nefna þær rannsóknir sem farið hafa fram, m.a. við Háskólann á Akureyri og hjá fyrirtækjum á Norðurlandi og Austurlandi.

Ég tel að nú á þessum tímum bjargráðanna eigi að beita rannsóknasjóðum okkar markvisst til praktískra rannsókna, nú þegar mikið liggur við að íslensk þjóð vinni sig sem hraðast út úr kreppunni. Tölur um minnkandi afla úr heimshöfunum eru sláandi en einnig tölur um vaxandi fiskeldi í heiminum. Við verðum að vera með í þeirri þróun og a.m.k. halda okkar hlut á fiskmörkuðum, helst að auka hann. Frændur okkar Norðmenn hafa miklar tekjur af fiskeldi og þar starfa um 4.000 manns við fiskeldi. Þeim hefur tekist vel að sigrast á ýmsum erfiðleikum sem virðast ganga reglulega yfir. Flöskuhálsinn hér á landi er nú, eins og ráðherra nefndi, seiðaframleiðslan. Mín skoðun er að það sé mikið á sig leggjandi til að ná árangri þar og mun því styðja að hið opinbera komi að því að seiðaeldisstöð geti orðið að veruleika eftir að meiri þekkingar og reynslu hefur verið aflað.

Ég tek undir það með ráðherra að það þurfi samstillt átak hins opinbera og einkafyrirtækja. (Forseti hringir.) Einkafyrirtækin hafa dregið vagninn og munu gera það áfram.