136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[16:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er virkilega góð umræða og ég vil þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að vekja hana hér. Það er hins vegar miður að hæstv. ráðherra og aðrir stjórnarliðar sem hér hafa talað hafa ekki svarað þeirri spurningu sem hv. þingmaður lagði fram um það hvort menn sæju fyrir sér að fræðasetur yrði sett upp vestur á fjörðum til að sinna þessum rannsóknum. Að mínu viti er á þessu stigi fyrst og fremst um þekkingaröflun að ræða. Þetta er auðvitað atvinnusköpun og þetta er matvælaframleiðsla, þetta er verðmætasköpun og þetta er gjaldeyrisöflun. En á þessu stigi er þetta þekkingaröflun fyrst og fremst. Við þurfum að vita um hvað eldið snýst. Við þurfum að læra meira um klakið. Við þurfum að geta framleitt kvíarnar og rekið þær, við þurfum að framleiða fóður og við þurfum að meta umhverfisáhrif og læra á kynbætur.

Ég fagna því sérstaklega að ráðherra skuli lýsa sig reiðubúinn til þess að ríkið komi að þessum málum og hann nefnir seiðaeldisstöð. Ég verð að segja það, frú forseti, að í þeim efnum er mjög mikilvægt að virða náttúrulegan fjölbreytileika. Við verðum að virða, þekkja og styrkja þá þekkingu á þorskstofnunum okkar en ekki þorskstofninum vegna þess að það er sannað að þeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir við landið. Þess vegna hljótum við bæði í rannsóknum, veiðum og eldi að taka tillit til þess. Ég er með öðrum orðum, hæstv. ráðherra, að vara eindregið við því að menn stefni á eina stóra seiðaeldisstöð fyrir allt landið.

Ég tek undir nauðsyn þess að setja upp fræðasetur á þessu sviði vestur á fjörðum. Þar er vaggan í þessum efnum og ég skora á sveitarstjórnarmenn og ráðherra að snúa sér að því að efla það og hætta við öll áform um olíuhreinsistöð á þessu svæði (Forseti hringir.) vegna þess að þetta tvennt fer ekki saman, matvælaframleiðsla og olíuhreinsistöð. Við skulum velja á milli og við skulum velja náttúruna.