136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[16:02]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram um þorskeldi og þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans en í henni kom ýmislegt fram. Við erum að ræða um mjög mikilvæga nýsköpun í atvinnumálum sem er mjög jákvæð. Það hafa ýmsir frumkvöðlar komið að þessum málum og lagt mikið undir. Sumir hafa upp skorið og aðrir ekki eins og gengur þegar við ræðum nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Í umræðunni hefur verið farið yfir hversu mikilvægt er að við náum árangri í þorskeldinu. Það hefur orðið samdráttur í þorskveiðum en aukið þorskeldi eykur auðvitað verðmætasköpun og vinnslu. Í dag eru þegar þó nokkuð margir sem hafa fulla atvinnu af því að vinna að afurðum þorskeldisins.

Ég tek líka undir það sem fram hefur komið um þróun og annað varðandi seiðaframleiðslu og seiðaeldi. Það er eitt af grundvallaratriðum í þessu máli sem við þurfum að ná tökum á og það er mjög mikilvægt.

Nýsköpun er auðvitað langhlaup sem kallar á úthald og það sem við köllum gjarnan þolinmótt fjármagn og þorskeldið er einmitt dæmi um slíka nýsköpun. Það er ljóst að stjórnvöld verða að koma að því að styðja við þetta verkefni. Hæstv. ráðherra kom inn á það og nefndi þar m.a. rannsóknir og þróun. Ég tek undir það og nota tækifærið til að hvetja hæstv. sjávarútvegsráðherra til dáða í þessu máli í heild sinni og veit reyndar að hann hefur mikinn áhuga á því.

Ég vil undir lokin, virðulegi forseti, taka undir það sem kom fram hjá framsögumanni um stofnun fræðaseturs þorskeldis á Ísafirði. Ég tek undir það því við þekkjum að Vestfirðirnir eru vagga þorskeldisins. Þar hefur byggst upp mikil þekking og reynsla og ég tel það mjög jákvætt og gott að við vinnum að því í sameiningu að stofna fræðasetur þorskeldis á Ísafirði.