136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:14]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Frumvarpið er að mínu mati ekki gott og verður til þess að halda uppi leiguverði, leiguverð verður hærra en ella, þar sem skip og útgerðir með lítinn kvóta eiga ekki kost á því að veiða upp í heimildir sem ekki nást. Það er nógu slæmt að það sé 20%, hefði þurft að vera 5 eða 10%. Ég er alfarið á móti því að fara þá leið að leggja til að leyfilegt verði að færa á milli ára 1/3 af úthlutuðum veiðiheimildum. Maður getur spurt sig hvort það sé rökrétt ef svo illa gengur að veiða ákveðna fisktegund að leyfa að flytja 33% á milli ára. Ég hefði haldið að það væri ávísun á það að ástand viðkomandi fiskstofns væri mjög lélegt og því ekki gerlegt að bíða með það að veiða ef ekki er hægt að veiða. Þetta hjálpar mönnum að halda uppi leiguverði og eykur enn þjáningar þeirra leiguliða sem fiska á skipum sem eru með litlar veiðiheimildir eða jafnvel engar. Ég er því alfarið á móti því að frumvarpið verði samþykkt.

Það er dálítið skondið að þegar menn eru af ýmsum ástæðum að reyna að ná sáttum í þjóðfélaginu skuli þeir kjósa að búa betur í haginn fyrir svokallaða sægreifa sem hingað til hafa fengið að braska með kvótann. Ekki þarf að taka það fram að þegar gjafakvótakerfið var sett á fóru menn að braska með veiðiheimildir. Eftir að frjálsa framsalið komst á árið 1991 fóru menn að braska af alvöru. Þá fóru þeir að leigja veiðiheimildir, selja og veðsetja dýrum dómi. Ekki er hægt að sætta sig við að nú eigi að gera mönnum það auðveldara en áður — takið eftir — að halda uppi leiguverði og pína leiguliðana meira en gert hefur verið.

Ég hef stundum sagt að halda mætti að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri strengjabrúða hjá LÍÚ-klíkunni. Mér sýnist það vera að sannast í dag eins og oft áður. Frumvarpið gengur alfarið út á að hjálpa stóru fyrirtækjunum sem fengu kvótann gefins í upphafi og hafa nýtt sér það að leigja allt að 50% á ári af veiðiheimildum.

Ekki er ástandið betra í svokölluðu smábátakerfi. Þar er sama fyrirkomulag. Ef eitthvað er er það verra en í stóra kerfinu þar sem menn leigja báta á svokallaðri kínaleigu. Þá leigja þeir bátinn og þurfa ekki einu sinni að færa veiðiheimildir á milli. Geta raunverulega leigt 100% ár eftir ár af kvótanum. Í stóra kerfinu er það þó þannig að menn leigja ekki á hverju fiskveiðiári nema 50% af veiðiheimildum. Þetta er partur af þessu brjálaða fiskveiðistjórnarkerfi okkar og ætti í sjálfu sér að vera búið að breyta því. Við höfum fengið tilmæli frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, álit þar sem staðfest er að við séum að brjóta mannréttindi á þegnum okkar með þessu kerfi. Menn ættu að sjá sóma sinn í að leggja þetta kerfi af. Við kynnum einmitt í frumvarpi sem við mælum fyrir á eftir hugmyndir um að innkalla allar veiðiheimildir.

Þetta er ekki til þess að ná sátt. Ef eitthvað er eykur þetta óánægjuna með kerfið og hjálpar þeim stóru sem fengu ókeypis veiðiheimildir í upphafi og mun einungis þýða meiri átök í samfélaginu. Mér sýnist að sumir ráðherrar ættu að fara að fá sér lífverði með tilliti til þess sem er að gerast í þjóðfélaginu, ef skapað er meira ósætti um fiskveiðistjórnarkerfið sem og önnur mál erum við komin mjög langt frá veruleikanum. Manni finnst stundum að þingmenn og ráðherrar, sem hafa verið að fjalla um þessi mál, séu nánast veruleikafirrtir þegar þeir halda að þeir geti endalaust haldið áfram að misbjóða fólki í landinu með misskiptingu eins og við búum við í fiskveiðistjórnarkerfinu.

Þetta er mjög alvarlegt og ég hvet hæstv. sjávarútvegsráðherra til að draga frumvarpið til baka og vera ekki að leika sér að því að búa til meira ósætti í samfélaginu en raun ber vitni. Þetta er með þeim hætti að ekki er hægt að sætta sig við svona gjörninga. Ég segi því enn og aftur: Dragðu frumvarpið til baka til þess að valda ekki meiri glundroða meðal þjóðarinnar en raun ber vitni. Leggjum af þetta lénsherrakerfi, sægreifakerfi, og tökum upp heilbrigðari skynsemi í fiskveiðistjórnarmálum. Hættum þessu bulli sem við höfum verið með síðustu 20 ár og verum ekki að búa til og viðhalda leiguliðakerfi. Þetta er óréttlátt í alla staði, hefur alltaf verið og verður alltaf. Það verður aldrei hægt að una því að einhverjir fáir útvaldir eigi auðlindina í hafinu og hinir megi éta það sem úti frýs eða jafnvel ekki einu sinni það.