136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:40]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu. Ég fagna þessu frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fram um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða frá árinu 2006. Já, ég segi heils hugar við vinstri græna og hv. þingmann Jón Bjarnason að ég fagna þessu innilega. Ég tel að þessar breytingar komi bæði stærri og smærri útgerðum til góða, sérstaklega varðandi geymslurétt á ýsu.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er talið líklegt að leyfilegur ýsuafli dragist saman á næsta ári. Þá kemur sér vel fyrir útgerðina að geta fært meiri afla á milli fiskveiðiára. Frá upphafi kvótaársins hefur þessi heimild verið inni og ég tel að það gefi kvótakerfinu sveigjanleika. Eins hefur þetta komið í veg fyrir brottkast.

Sókn í ýsu hefur verið meiri undanfarin ár eftir að niðurskurður varð á þorski, sérstaklega á síðastliðnu ári þegar skerðingin varð svo mikil sem raun bar vitni. Útgerðir hafa þurft að hagræða og gera breytingar á hverju einasta fiskveiðiári og ekki hefur verið öfundsvert að standa í þeirra sporum, hvað þá eins og ástandið er í þjóðfélaginu í dag. Hvaða atvinnugrein í landinu hefur þurft að búa við að þurfa að breyta sínu rekstrarformi og öðru til að laga sig að breyttum aðstæðum á hverju einasta ári? Mörg fyrirtæki hafa orðið fyrir áföllum og stríða núna við gjaldeyrisinnstreymið, hvað það er erfitt inn til landsins. Þá tel ég að það sé gott fyrir útgerðina að hún geti hagrætt eins og hún telur best vera.

Ég fagna þessu frumvarpi. Ég ætla ekki að ræða um ósætti um kvótakerfið en tel jafnframt að þetta komi útgerðinni mjög til góða í framtíðinni.