136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:43]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hagræðing útgerðarinnar, það er einmitt stóra málið sem við ræðum. Þær hafa möguleika á að halda hærra verði á leigukvóta en þyrfti að vera. Þess vegna ætti frekar að lækka þetta hlutfall en hækka. Ýsukvótinn er að mati margra sjómanna núna allt of hár. Ef hann er of hár og næst ekki að veiða hann á þessu fiskveiðiári væri sennilega miklu viturlegra að skera niður kvótann næsta ár vegna þess að ef ekki næst að veiða hann, þegar öll sóknin liggur í ýsu, er verið að veiða of mikið.

Ef við berum saman ýsukvóta og þorskkvóta er tilfellið að hægt er að veiða þrisvar, fjórum sinnum útgefinn þorskkvóta á þessu fiskveiðiári en við megum þakka fyrir ef við náum 80–90% af ýsukvótanum, þrátt fyrir að búið sé að opna veiðisvæði gagngert fyrir ýsu, svæði þar sem smáýsa hefur verið.

Við í þessu þjóðfélagi erum núna í miklum vandræðum. Enn og aftur tek ég fram að þetta þýðir að sjómenn á kvótalitlum bátum og kvótalitlar útgerðir þurfa að borga hærra leiguverð en ella fyrir sínar leiguheimildir.

Það sem er arðbærast í dag í íslenskum sjávarútvegi er að leigja frá sér leiguheimildir. Það er arðbærara heldur en að veiða. Arðbærast er þegar þorskkvóti er leigður á 250 kr. ef fást fyrir hann 300–350 kr. og ef hann er stór og góður. Þegar (Forseti hringir.) menn leigja kvóta með þessum hætti eru þeir algerir leiguliðar.