136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:02]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu, sem er nú ekki stórt í sniðum, er lagt til að í stað hlutfallstölunnar 20% komi 33% í þeirri grein sem þar er miðað við, þ.e. heimild til að fresta nýtingu hluta aflamarks þannig að þriðjungi af úthlutuðu aflamarki eins árs megi fresta til næsta árs. Kerfið sem við búum við og köllum kvótakerfi byggir á því að miðað sé við vísindalegar veiðar og fram fari nákvæmir útreikningar Hafrannsóknastofnunar um hver sé eðlilegur hámarksafli af tegund á því umrædda fiskveiðiári. Þá er talað um viðmiðun á hámarksafla á tegund á því fiskveiðiári en ekki því næsta.

Í frumvarpinu er talað um að hægt sé að fresta hámarksaflanum til næsta árs, sem þýðir að miðað við úthlutaðan kvóta núna, þ.e. 130 þús. tonna af þorski, megi fresta veiði á um 40 þús. tonnum og flytja til næsta árs. Sem þýðir að 90 þús. tonn væru veidd samkvæmt þessu. — Ég bið hv. þm. Karl V. Matthíasson að trufla ekki sjávarútvegsráðherra, hann þarf að hlusta á þetta.

Við frjálslynd höfum lagt til að í því árferði sem við búum nú við þurfi ekki að draga úr fiskveiðum heldur auka þær. Þau rök hafa verið notuð gegn sjónarmiðum okkar og tillögum að þar sé farið á svig við útreikninga og sjónarmið sem lögð eru til grundvallar kvótakerfinu og því að byggja upp þorskstofnana í sjónum. Þá spyr ég að breyttu breytanda miðað við þetta frumvarp: Hvers konar glóra er lögð til? Talað er um að megi flytja það sem Hafrannsóknastofnun leggur til um hámarksafla til á milli ára. Af hverju er það og má gera það í þessu tilviki? Getur það þjónað hagsmunum um vísindalegar veiðar, vísindalega verndun fiskimiðanna og þess að byggja upp fiskstofnana í kringum landið? Ég sé satt að segja enga heila brú í svona stjórnsýslu.

Eðlilegt er að þegar miðað er við 130 þús. tonna hámarksafla af þorski á þessu fiskveiðiári sé miðað við að 130 þús. tonn af þorski komi á land á því ári en ekki sé hægt að fara með þetta eins og stjórnvöldum hentar hverju sinni, veiða pínulítið á þessu ári og breyta því og flytja á milli ára. Það er þá ekkert vit í ráðgjöfinni sem um ræðir heldur er farið á svig við grunnatriðin sem sjálft kvótakerfið byggir á. Frumvarp um að heimila að fresta um þriðjungi aflamarks, alveg óháð tegundum, fer rækilega gegn þeim hugmyndum sem sjónarmið, útreikningar og ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar byggja á. Burt séð frá réttlæti eða óréttlæti kvótakerfisins og hugmyndum um hvort verið sé að leggja sjávarútveginn í einelti eða halda uppi réttmætri gagnrýni á kvótakerfið, gengur ekki rökfræðilega upp að við höfum vísindalega verndun fiskimiðanna á sama tíma og við förum ekkert eftir því sem vísindin segja.

Í sumum tilvikum virðist það henta ákveðnum aðilum og stefnum að hanna rökin í samræmi við það sem þeim hentar hverju sinni og þá er breytt til eftir atvikum. Það virðist einmitt vera helsta atriðið í þessu sambandi að breyta og hanna rökin fram og til baka eftir atvikum.

Talað var um að verið væri að gagnrýna kvótakerfið og útgerðarmenn hefðu þurft að sæta því að skera niður afla ár eftir ár. Þetta sagði hv. þm. Herdís Þórðardóttir í ræðu sinni áðan. Það sem er rétt í því máli er að þeir sem stunda veiðar, þ.e. þeir sem eiga kvótann, hafa þurft að sæta því að skera niður ár eftir ár. Þegar svo háttar til að við höfum um áratugaskeið haft kvótakerfi þar sem er miðað við að aflinn fari ekki umfram ákveðið hámark sem reiknað er út af Hafrannsóknastofnun, þó miðað við endanlega ákvörðun sjávarútvegsráðherra hverju sinni. Fylgismenn kerfisins hafa ítrekað talað um að við höfum fullkomnasta og besta kerfi í heimi til að stunda sjálfbærar veiðar og auka afrakstur á fiskimiðunum og hafa sem hagkvæmasta hluti hvað varðar veiðar og vinnslu.

Fyrst kerfið er svona fullkomið hvernig stendur þá á því að skera þarf niður afla ár eftir ár? Hvernig stendur á því að áratugum saman skuli kerfið virka með þeim hætti að í stað þess að fiskstofnarnir séu byggðir upp og afraksturinn á fiskimiðunum aukist minnkar afraksturinn aftur og aftur, ár eftir ár, áratug eftir áratug? Geta náttúrulegar sveiflur í hafinu valdið þessu? Vísindamenn hafa ekki bent á að um slíkt geti verið að ræða. Er þá ráðgjöfin frá Hafrannsóknastofnun svona röng eða hvað er verið að gera sem brýtur niður alla hugmyndafræði og aflatakmörkun sem kvótakerfið byggir á?

Hefur nokkurs staðar í veröldinni tekist að byggja upp fiskstofna með sambærilegu kerfi og okkar? Svarið er nei, það hefur hvergi tekist og það er akkúrat staðreyndin í málinu, hin döpru sannindi.

Eins og ég gat um áðan höfum við frjálslynd lagt til að auka fiskveiðar nú þegar kreppir að í þjóðfélaginu til að auka verðmætasköpun og möguleika fólks á að hafa atvinnu og leggja fyrir sig arðbæra vinnu. Þetta hefur verið gagnrýnt harðlega og einmitt vikið að því að við förum á svig við þau sjónarmið sem lögð eru til um vísindalegar veiðar. Ég mótmæli því og tel að sjónarmið okkar eigi mun frekar rétt á sér en sjónarmiðin sem eru í raun forsenda lagafrumvarpsins sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fram.

Ég tek undir með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að manni virðist það helsta sem þetta frumvarp hafi sér til ágætis fyrir þá sem fengu kvótann, sem eiga kvótann, sé að þeir geti hækkað verð á leigukvóta, en það er þá til bölvunar fyrir þá sem eiga ekki kvótann að þurfa að borga hærra verð en ella fyrir hann og það er óviðunandi. Að sjálfsögðu er ekki hægt að sætta sig við slíkt.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að auðvitað verði fiskveiðistjórnarkerfinu sem við búum við í dag ekki breytt og sagði síðan eftir nokkrar sekúndur að hún teldi ekki miklar líkur á að fiskveiðistjórnarkerfinu yrði breytt á þessu kjörtímabili. Engin mannanna verk eru eilíf og við teljum að kerfið sem við búum við í dag hafi ekki skilað árangri heldur dregið úr afla og takmarkað möguleika fólks til að stunda veiðar, þ.e. án þess að hafa til þess sérstakt bréf frá yfirvaldinu. Í dag mega menn hvorki róa til fiskjar né hlaupa fyrir fé nema hafa sérstakt leyfisbréf frá yfirvaldinu og það er óásættanlegt að þannig skuli það vera á því herrans ári 2008.

Hugmyndin með kvótakerfinu þegar því var komið á var ekki sú að það ætti að standa 2008 heldur var um bráðabirgðaráðstöfun að ræða til að leysa úr ákveðnum vanda þess tíma. Í sjálfu sér var hægt að sætta sig við að þannig væri farið að til skamms tíma en gjörsamlega útilokað að hægt sé að sætta sig við að bráðabirgðakerfið hafi verið framlengt og orðið að þessum óskapnaði.

Vegna hvers eru þær miklu þrengingar sem við búum við? M.a. vegna þess að verðmæti hafa verið búin til sem engin innstæða var fyrir. Edda Rós Karlsdóttir, aðalhagfræðingur Landsbankans, benti á að byrjunin á öllu þessu endemis skuldsetningarrugli sem við súpum nú seyðið af hafi verið kvótakerfið í sjávarútveginum. Með því að taka það upp hafi verið búin til verðmæti sem ekki voru til áður. Hvaða verðmæti voru það? Verðmætin voru þau að allt í einu voru búin til takmörkuð gæði. Áður fyrr voru þetta gæði sem voru öllum frjáls og ekkert sérstakt verð á þeim á meðan svo var. En þegar gæðin voru takmörkuð fengu þau, eins og öll takmörkuð gæði, ákveðið verð. Ákveðin verðmæti voru búin til sem ekki höfðu verið til áður.

Afleiðingar þess, eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson gerði grein fyrir áðan, hafa verið þær að heildarskuldir útgerðarinnar hafa vaxið og vaxið og aldrei verið meiri en núna. Hvað svo sem fylgjendur kvótakerfisins segja liggur fyrir að í fyrsta lagi er aflinn sem má veiða minni en hann hefur nokkru sinni verið og minnkað með ári hverju, í öðru lagi er afrakstur útgerðarinnar í föstu gengi talið minni og í þriðja lagi hefur verið búið til ójafnræði og staðið fyrir mannréttindabrotum eins og niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna segir til um.

Þegar við höfum allt þetta fyrir augunum af hverju eigum við þá að halda áfram með kerfi sem er þar að auki svo snargalið — ég biðst afsökunar á að nota þetta orð en því miður er svo lítil vitræn glóra í kerfinu — að hér er lagt til að flytja megi á milli ára, þrátt fyrir öll vísindi, þriðjung af aflaheimildum? Ég get ómögulega séð að hægt sé að fallast á það, 20% hámarkið er á ýtrustu mörkum þess sem hægt er að sætta sig við. Að hækka það enn frekar sýnir að engin vísindi eru á bak við kvótakerfið. Það eru bara geðþóttaákvarðanir til og frá sem eiga að ráða því með hvaða hætti þessum málum er skipað.

Þess vegna sé ég ekki að nokkur forsenda sé fyrir því að ætla að samþykkja frumvarpið sem hér liggur fyrir. Það er í fyrsta lagi andstætt þeim „vísindalegu sjónarmiðum“ sem sögð eru liggja til grundvallar og í öðru lagi er það eingöngu til þess fallið að heimila þeim sem eiga sérstaklega mikið af aflaheimildum að nota þær eftir hentugleikum, eftir geðþótta. Það er óviðunandi og ekki hagsmunir þjóðarinnar að þannig skuli farið með. Eins og nú háttar til skiptir máli að sá afli sem heimilaður er verði veiddur.