136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gallinn við það þegar menn stunda svona hugarleikfimi eins og hv. þingmaður gerði án þess að hafa fimi til þess er hættan sú að menn lendi á hausnum. Það er það sem hv. þingmaður lenti í núna.

Þegar verið er að tala um að byggja upp þorskstofna með því að draga úr veiðinni er grundvallaratriðið að reyna að draga úr sóknarmættinum þannig að færi gefist til þess að þorskstofnar eða aðrir fiskstofnar geti stækkað, þeim fjölgað og þeir aukið þyngd sína þannig að hægt sé að ná meiri afrakstri á komandi árum. Það er grundvallaratriðið sem er á bak við það „prinsipp“ sem Hafrannsóknastofnun fylgir.

Ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu mína áðan og læsi t.d. þær athugasemdir sem fylgja frumvarpinu er alveg ljóst mál að á bak við frumvarpið liggja ekki í grundvallaratriðum fiskifræðileg rök. Það er ekki þannig að það sé liður í því að byggja fiskstofnana upp hraðar. Það eru allt önnur rök, fyrst og fremst hagkvæmnisrök sem þar liggja að baki. Ef við skoðum frumvarpið t.d. út frá sjónarhóli fiskifræðilegrar ráðgjafar sem komið hefur frá Hafrannsóknastofnun mun það fremur stuðla að því að efla fiskstofnana. Það er ekki þungamiðjan í því sem liggur að baki frumvarpinu eins og kemur fram í athugasemdunum og í ræðu minni. Ekkert af því sem ég hef sagt eða af því sem kemur í frumvarpinu gefur neitt tilefni til útúrsnúninga á borð við þá sem hv. þingmaður kom með, að ef ekkert veiðist eitt árið megi tvöfalda veiðina næsta ár á eftir.

Það sem liggur einfaldlega að baki er að verið er að reyna að búa til aukinn sveigjanleika í fiskveiðistjórnarkerfi sem legið hefur undir gagnrýni fyrir að það sé ekki nægjanlega sveigjanlegt. Frumvarpið hvetur til aukinnar hagræðingar sem á og mun auðvitað skila sér bæði til útgerða og sjómanna og annarra þeirra sem starfa í sjávarútvegi.