136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:26]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það er sjálfsagt mál að rifja aðeins upp upphaf kvótakerfisins og svörtu skýrsluna 1983 um slæma stöðu þorskstofnsins, um það togararall sem þá var búið til af Hafrannsóknastofnun sem mikið hefur verið rifist um í gegnum tíðina. Sjómenn, starfandi menn í sjávarútvegi, hafa ekki verið hrifnir af því og metið það lítils. Þeir hafa ekki talið það hæft til að mæla hversu mikið er af fiski í sjónum.

Hæstv. ráðherra sagði í kosningabaráttu ekki fyrir mörgum kosningum síðan að hann styddi ekki ríkisstjórn sem ætlaði að hafa óbreytt aflamarkskerfi eða óbreytt kvótakerfi áfram og lýsti því þá yfir ásamt öðrum þingmanni í sínu kjördæmi, hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að hann styddi ekki óbreytta fiskveiðistefnu. En þegar þáv. hv. þingmaður, Einar K. Guðfinnsson, fékk boð um að verða sjávarútvegsráðherra breyttist ýmislegt í fari hans og hann tók ekki bara 90° beygju, hann tók u-beygju. Hv. þingmaður, nú hæstv. sjávarútvegsráðherra, fór allt í einu að fylgja núverandi fiskveiðistjórnarkerfi út í eitt.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson fer með útúrsnúninga í öllu í málflutningi sínum varðandi umræðu um frumvarpið og ber saman svo ólíka hluti sem er alveg út í hróa hött. Breyting á lögunum úr 20% í 33% mun hafa aukið brottkast í för með sér, það verður minna af veiðiheimildum til leigu. Að það sé sátt við fólkið í landinu er af og frá. Það er einmitt þetta sem fólkið í landinu mun ekki sætta sig við en nú stefnir í, að mönnum sé gefið tækifæri til þess að geyma meira á milli ára. Það mun í sumum tilfellum þýða minni atvinnu hjá fólkinu í landinu.

Það er líka ágætt að rifja það upp að hlutabréfamarkaður kom á sínum tíma að miklu leyti út af gjafakvótakerfinu. Þegar kvótinn var afhentur og menn fóru að geta braskað með veiðiheimildir fóru þeir með mikla peninga út úr sjávarútveginum sumir hverjir. Það er kannski að hluta til skýringin á því að sjávarútvegur er nánast á hausnum í dag.

Þegar verið er að tala um skuldir sjávarútvegsins hef ég spurt hæstv. sjávarútvegsráðherra að því endurtekið hverjar skuldir sjávarútvegsins eru í dag, sem er mjög þarft að fá fram. Það er líka mjög þarft að vita hverjar tekjur ársins í sjávarútvegi verða og síðast en ekki síst að fá að vita hver framleiðni er í íslenskum sjávarútvegi í dag. Það útskýrir stöðuna í íslenskum sjávarútvegi fyrir almenningi í landinu.

Segja má um kvótakerfið að það sé tilraun sem ekki tókst. Þó að kerfið sé búið að vera eins og það er frá því að frjálsa framsalið var sett á 1991 er það ekki ósvipað tilrauninni með flotkrónuna sem var sett á í peningamálum 2001. Hún hefur ekki gengið upp.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að auka veiðar á þorski og teljum það mjög raunhæft. Auðvitað hlýtur Hafrannsóknastofnun að hafa skoðun á því hvort það er til bóta eða ekki. Það verður fróðlegt að heyra þegar búið verður að leggja fram frumvarpið og leita álits hjá Hafrannsóknastofnun um það.