136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:32]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða. Að mínu viti hafa komið fram ýmsar mjög merkilegar yfirlýsingar. Ég hygg t.d. að yfirlýsing hæstv. sjávarútvegsráðherra hér í pontu, í andsvari við hv. þm. Jón Magnússon, hljóti að teljast með þeim merkilegri. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði eitthvað á þá leið að af því að þingmenn Frjálslynda flokksins séu á þeirri skoðun að meiri þorskur sé í sjónum en Hafrannsóknastofnun mæli með sé það að sjálfsögðu vegna þess að kvótakerfið sé við lýði. Merkilegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli hafa komið sér upp þessari trú, hún var ekki til staðar fyrir nokkrum árum. Ég held að við getum ekki hengt afkomu fiskstofna í lífríki Íslands, hafinu, á það að hér sé kvótakerfi. Ég ætla að nefna nokkur dæmi til að menn átti sig á því hvað ég er að fara.

Ég vænti þess að menn — alla vega þeir sem fylgst hafa með sjávarútvegsmálum og örugglega hæstv. sjávarútvegsráðherra — muni þá tíma þegar ýsustofninn var að stækka sem mest hér við land. Var það vegna þess að verið væri að veiða eftir kvótakerfinu? Nei, menn voru að veiða verulega umfram það sem ráðlagt var í aflaheimildum. Það var m.a. vegna þess að smábátarnir höfðu þá frelsi til að veiða ýsu. Ég hef stundum sagt að ýsustofninn hafi eiginlega stækkað mest undir mjög auknu veiðiálagi smábátanna. Að vísu fór sú veiði fram með krókum eingöngu og egna þurfti fyrir viðkomandi fisktegund með beitu. Það fór saman við það að fiskurinn þurfti að afla sér ætis, það fór líka saman við það að þróun varð í því að stýra veiðum í eina tegund eins og t.d. með pokabeitu, sára og sandsíli o.s.frv. Allt að einu er það staðreynd, hæstv. forseti, að kvótakerfið gerði alls ekki ráð fyrir þeirri uppbyggingu sem varð í ýsustofninum á þessum árum.

Ýsustofninn stækkaði þrátt fyrir kvótakerfið, að mínu viti vegna þess að sjór var að hlýna hér við land. Sjávarhita er alveg örugglega ekki stýrt af sjávarútvegsráðuneytinu eða Hafrannsóknastofnun. Þar eru náttúruleg skilyrði á ferðinni og þau geta breytt verulega stækkun og útbreiðslusvæði botnfiska eins og gerðist með ýsuna þegar útbreiðslusvæði hennar, sem var hér sunnan og vestan lands, færðist einnig norður fyrir land og allan hringinn, þegar ýsustofninn dreifðist miðað við hlýrri sjó allt í kringum land og fór að alast upp í fjörðum og flóum, m.a. norðan lands þar sem ekki hafði sést ýsa áratugum saman. Í því sambandi má minna á trillukarlinn á Drangsnesi sem sagði einhvern tíma þegar ýsan var farin að veiðast í Steingrímsfirði sem aldrei fyrr: Ja, það bregður við frá því sem áður var. Ef við fengum ýsu settum við hana í svartan plastpoka svo að enginn sæi þegar við færum með hana í soðið heim — þegar ekki fiskaðist nein ýsa í Húnaflóa.

Það er staðreynd að fiskstofnar byggja sig upp á allt öðrum forsendum en þeim hvernig kvótakerfi hefur verið við lýði. Við höfum ekki endilega náð einhverri sérstakri uppbyggingu á þorskstofninn í gegnum kvótakerfið og það gerðist ekki heldur þegar ýsustofninn stækkaði. Hægt er að sjá í gömlum tölum aflaheimildir af ýsu sem eru í námunda við það sem við veiðum nú, það gerðist upp úr 1952 eða 1953 og á árunum þar á eftir. Þá var ekkert kvótakerfi við lýði og mikil ásókn veiðiflota hér við land, m.a. breskra skipa sem voru á grunnslóðinni. Ég vil því leiðrétta hæstv. sjávarútvegsráðherra, vara hann við þeirri trú að aðeins kvótakerfið geti stækkað botnfiskaflann. (Gripið fram í.) Ja, það mátti nú skilja það, hæstv. ráðherra, á orðum þínum að þorskstofninn væri kannski stærri en gert hefði verið ráð fyrir — ég held þú hafir einhvern tímann ýjað að því að við þingmenn Frjálslynda flokksins héldum því fram. Ég vil benda á að langflestir sjómenn við Ísland halda því líka fram að þorskstofninn sé stærri en Hafrannsóknastofnun hefur gert ráð fyrir. Ekki fer á milli mála að þorskur í útköntum landgrunns Íslands er nú sennilega meiri en hann hefur verið í mörg ár. Þar til viðbótar er mikið af íslenskum þorski að vaxa upp við Austur-Grænland og heldur þar uppi ágætri veiði eins og ég vænti að hæstv. sjávarútvegsráðherra viti. Þetta er nú um þann þátt málsins sem snýr að lífríkinu og það er fyrst og fremst lífríkið sem ræður því hvort fiskur vex vel upp hér við land eða ekki. Kvótakerfið er þáttur í því að stýra veiðum en engin trygging fyrir því að stofnar stækki.

Ef við ætluðum að nota sömu reglu og ráðherra leggur hér til varðandi það að auka færslu á milli fiskveiðiára úr 20 í 33% má spyrja: Hvers vegna gerðum við það ekki árin 1992–1995 þegar við náðum ekki þorskaflanum okkar, að fara með veiðifærsluna á milli ára og tryggja að við næðum öllum þorskaflanum? Á þeim árum tókst mönnum ekki einu sinni að færa allan fiskinn, allan þorskkvótann, á milli fiskveiðiára. Það var vegna þess að ákaflega illa gekk að veiða hann. Það varð síðan til þess að forveri hæstv. sjávarútvegsráðherra, Þorsteinn Pálsson, ákvað að fara með þorskveiðiaflann niður í 155 þús. tonn, ef minni mitt þrýtur ekki. Ekki var farin sú leið að auka geymsluna á milli ára.

Almennt vil ég segja það um geymslu á milli ára að ég tel að kannski hafi verið talsverð sátt um það á undanförnum árum að hafa hana í 20% reglunni. Ég hef hins vegar sjálfur almennt verið hlynntur því að veiðiskyldan væri sem hæst. Ég hef margoft talað fyrir því að þannig ætti það að vera. Þetta væri nýtingarréttur sem útgerðarmenn fengju og þeir ættu að hafa þann hvata að reyna að veiða sem mest.

Við getum spurt okkur, hæstv. forseti: Hver eru hin raunverulegu áhrif í dag af því að leggja til að hækka færslu á milli ára úr 20% í 33%? Samkvæmt mínum upplýsingum, og ég beini því til hæstv. ráðherra að hann kanni það sjálfur, hefur leiguverð á ýsu verið um 40 kr. undanfarna daga. Nú liggur þetta frumvarp hér fyrir og menn verða þess áskynja að þar sem ríkisstjórnin leggur það fram með 43 manna þingmeirihluta muni málið fara í gegn. Hvað skeður þá? Þeir sem fyrir nokkrum dögum voru að leigja ýsu á 40 kr., buðu í hana 40 kr. og fengu ekki, hækkuðu boðið í 42, 43, 44 og 45 og fengu ekki — leiguverðið í dag er 57 kr. samkvæmt heimildum mínum. Þetta hefur gerst við það eitt að leggja þetta frumvarp fram. Ég skora á hæstv. ráðherra að kynna sér það hvort ég fer með rétt mál. Hann getur skoðað það með því að tala við menn sem stunda svokallaða kvótaleigu eða einstaka útgerðarmenn. Þeir eru nú í verri stöðu en áður sem hefur vantað ýsu til að geta haldið áfram veiðum og fá henni ekki úthlutað um hver fiskveiðiáramót. Þeir sem eiga aðgang að miklum aflaheimildum og hafa fengið þeim úthlutað eru í betri stöðu. Búið er að hækka leiguverðið til kvótahafa um tæplega 50%. Þetta eru áhrifin, hæstv. forseti, og menn skyldu skoða það vandlega hvað verið er að gera.

Ég tel líka að menn þurfi að vega og meta hvort rétt sé að verki staðið upp á það að tryggja að veiðin eigi sér stað innan fiskveiðiársins. Ég byggi þá á því að ég hef verið talsmaður þess að veiðiskyldan væri sem hæst og það væri eiginlega kvöð á útgerðarmönnum að reyna að ná aflaheimildum sínum sem mest. Ég hef svo sem ekki sett fram tillögu um að lækka þessa millifærslu, þessi 20% sem hafa verið í mörg ár í kerfinu. Ég leyfi mér að efast um að við séum að stíga rétt skref núna að þessu leyti.

Mig langar að gera að umræðuefni aðra fullyrðingu í greinargerðinni með frumvarpinu, hæstv. forseti. Hér stendur að stofn gefi að jafnaði meira af sér þegar veiðum á honum er frestað. Hvar geta menn sýnt fram á að það sé gegnumgangandi regla í líffræði sjávar að ef menn geyma aflann í sjónum sé alveg öruggt að menn gangi að honum á næsta ári og það sé víst að stofninn stækki alltaf þegar veiðum er frestað? Við höfum nú ekki náð svo miklum árangri hingað til með kvótakerfinu sem við höfum verið að byggja á þó að talsverð breyting hafi orðið vegna breytinga á hitafari sjávar og auknu fæðuframboði á Íslandsmiðum, m.a. á þessu ári. Náttúrulegar aðstæður eiga mikinn þátt í því, að ég tel, að fiskstofn eins og þorskurinn hefur vaxið meira en gert hafði verið ráð fyrir. Ég tel að útbreiðslusvæði hans til norðurs sé jafnvel enn meira en verið hefur undanfarin ár vegna hlýsjávar, samanber þá veiði sem hefur verið 35–40 sjómílur norður af Kolbeinsey á þessu ári þar sem mikið hefur veiðst af góðum þorski.

Það er því að ýmsu að hyggja í þessu sambandi, hæstv. forseti, og ekki sjálfgefið að það sem verið er að aðhafast hér og á að lögfesta þegar þetta hefur verið samþykkt, þ.e. lög sem taka þegar gildi — auðvitað er verið að hafa áhrif innan fiskveiðiársins, eins og ég nefndi áður, varðandi leiguverðið. Það kann að verða til þess að staða þeirra sem hafa haft minni veiðiheimildir — og hafa m.a. verið að sækjast eftir því að leigja til sín ýsu á því verði sem var í boði, 40 kr. — versnar verulega en staða þeirra sem hafa aflaheimildirnar lagast verulega. Þeir fá sem sagt nýjar tekjur, sem ekki voru áður í hendi, með þessu frumvarpi. Það er því alltaf viðkvæmt þegar verið er að breyta innan fiskveiðiársins. Ég skora á hæstv. ráðherra að kynna sér það hvernig leiguverðið hefur verið að breytast síðustu daga og í hvaða hæðum það er í dag og ræða um það við sjómenn sem gera út á þessar heimildir.

Ég geri hins vegar engar athugasemdir við það að menn megi veiða 5% fram fyrir sig af humri á milli fiskveiðiára. Ég tel að eins og árað hefur í humarveiðinni og miðað við dreifingu humarstofnsins séum við ekki að taka mikla áhættu með því að menn hafi þar sömu heimildir og við aðrar veiðar, að veiða fram fyrir sig, ef því er að skipta, sem nemur þessum 5%.

Hæstv. forseti. Ég sé að ég er að verða búinn með tíma minn. Ég get þar af leiðandi ekki farið í frekari söguskoðun á því hvernig fiskstofnar byggja sig upp og hvernig þeir þróast miðað við breytilegar forsendur í lífríki sjávar. Ég vil að endingu leyfa mér að mótmæla þeirri fullyrðingu hæstv. sjávarútvegsráðherra að það sé aðeins kvótakerfið sem byggir upp fiskstofna. Ég held að það sé mikil oftúlkun og vænti þess að hæstv. ráðherra hafi einhverjar efasemdir um það að þetta sé rétt framsetning. Hafi ég misskilið hann vænti ég þess að hann dragi þessa fullyrðingu til baka, að aðeins kvótakerfið byggi upp fiskstofna.