136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:49]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einfaldlega þannig að ef mönnum tekst ekki að veiða heimildir sínar og eru ekki með galopnar heimildir til að fara með þær á milli fiskveiðiára þá lækkar leiguverðið. Það bara gerist. Þar af leiðandi held ég að þeir sem vantar heimildir eigi auðveldari aðgang að þeim í núverandi kerfi. Það er náttúrlega líka vegna þess að allar heimildirnar eru á höndum útgerða, það er enginn markaður sem slíkur. Við tökum ekkert sérstakt frá af magni sem við bjóðum til leigu eða gefum byggðum eða sjávarútvegsfyrirtækjum, sem hafa minni heimildir, einhvern forgang að því að leigja til sín heimildir. Við höfum heldur ekki viðurkennt að leiguliðarnir, sem hafa leigt heimildir á undanförnum árum, og fiskvinnslur sem hafa þurft að afla sér heimilda með því að leigja til sín og leigja útgerðum, fái neina viðurkenningu á því á milli fiskveiðiára að það eru þeir sem veiða stóran hluta af fiskinum. Þetta sést vel ef hæstv. sjávarútvegsráðherra skoðar hefti Fiskistofu um hvað mikið fer á milli útgerða á hverju fiskveiðiári. Það eru svo til alltaf sömu útgerðirnar sem leigja frá sér, oft og tíðum sömu útgerðirnar sem leigja langmest frá sér og yfirleitt sömu aðilarnir sem leigja til sín en þeir öðlast ekki neinn rétt við það.

Þetta er náttúrlega staðnað fyrirkomulag, að nýtt fólk geti ekki komið inn í atvinnugreinina og átt einhvern rétt. Að það myndist enginn réttur hjá þeim sem eru að koma inn heldur eingöngu sá réttur að þeir sem eru þar fyrir eigi fiskinn í sjónum.