136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[17:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 130, 120. mál, en þar er um að ræða breytingar á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Breytingar þessar snúa fyrst og fremst að því að auka aðgengi fiskkaupenda hér á landi að afla sem fyrirhugað er að flytja á markað erlendis án þess að hafa verið endanlega veginn og skráður til kaupa.

Í upphafi síðasta árs tók ég þá ákvörðun að afnema svokallað útflutningsálag á óunnum botnfiskafla sem er fluttur úr landi. Samhliða þessari ákvörðun var skipuð þriggja manna nefnd sem hafði það hlutverk að skila tillögu um hvernig fiskkaupendum hér á landi væri best tryggður möguleiki á að bjóða í fisk sem er fluttur á fiskmarkað erlendis án þess að hafa verið endanlega veginn og skráður hér á landi. Nefndin hefur skilað tillögum sínum og þetta frumvarp er að mestu í samræmi við tillögur nefndarinnar.

Með frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar:

„Útgerðarmönnum sem fyrirhuga að flytja afla úr landi án þess að hann hafi verið endanlega veginn verður gert skylt að senda upplýsingar um afla til Fiskistofu sem sendir upplýsingarnar áfram til birtingar á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaðar með sjávarafla.“

Með þessum hætti er stuðlað að því að fiskkaupendur hafi tækifæri til að kaupa aflann áður en hann fer úr landi.

„Mikilvægt er að hafa í huga að regla þessi á einungis við um afla sem fluttur er úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Útgerðir eiga þess kost að vigta aflann hér á landi og þá er þeim frjálst að ráðstafa aflanum að vild.“

Önnur meginbreyting sem lögð er til er að Fiskistofa innheimti kostnað sem hlýst af eftirliti erlendis. Verður það að teljast eðlilegt að kostnaður sem hlýst af sérstöku eftirliti erlendis sé borinn af þeim aðilum sem eftirlitið beinist að.

Þá er lagt til að breyting verði gerð á viðurlagakafla laganna og kveðið verði á um afturköllun leyfis erlends markaðar til að taka á móti íslenskum afla hafi ekki verið farið að ákvæðum III. kafla laganna sem fjallar um vigtun sjávarafla og er það til samræmis við kröfur sem eru gerðar til vigtunarleyfishafa hér á landi. Auk þess er gert ráð fyrir að Fiskistofa afturkalli leyfi erlends markaðar til að taka á móti íslenskum afla sem hefur ekki verið vigtaður í þeim tilvikum sem markaður stendur ekki í skilum með greiðslu kostnaðar vegna eftirlits.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að mál þetta fái framgang og legg því til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.