136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[17:58]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Þetta frumvarp um breytingar á lögum nr. 57, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, lítur ágætlega út við fyrstu sýn. Það er að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn.

Svo kemur dálítið sem ég bið þingmenn um að skoða og fara yfir:

„Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum eða hann fluttur úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn, enda sé fiskurinn seldur á opinberum fiskmarkaði sem hlotið hefur leyfi Fiskistofu.“

Þarna staldra ég við. Ég tel að ef gera á breytingar á þessum lögum megi ekki vera undanþága í þeim um að vinir eða frændur fái hugsanlega að flytja fisk óunninn út en aðrir ekki, það verði mismunað milli kjördæma, milli landshluta og kannski flokksskírteina hverjir mega flytja út fisk í gámum ef þeir vilja. Ég tel að þetta sé stórhættulegt atriði. Ég hefði lagt til að þessu yrði breytt algjörlega í grundvallaratriðum og það yrði merkt við að þeir sem t.d. lentu í vélarbilun eða einhverju þess háttar, einhverju sérstöku, sem reyndar kemur fram þarna í frumvarpinu, gætu fengið sérstaka undanþágu.

Þetta er að mínu mati allt of loðið og þýðir að hæstv. sjávarútvegsráðherra er kominn í þá stöðu að geta ákveðið hverjir fá að flytja út og hverjir ekki. Það eru að mínu mati ekki nein eðlileg vinnubrögð. Það væri einfaldara að hafa prósent af afla eða eitthvað þess háttar. Þetta gerir það að verkum að mínu mati að ekki er hægt að samþykkja þetta frumvarp óbreytt.

Við sjáum þetta kannski í fleiri atriðum. Á síðasta ári voru samþykktar breytingar á landhelgislögum, eða réttara sagt undanþágur til þess að opna hólf til handa sjávarútvegsráðherra, og ýmislegt fleira hefur verið gert sem styrkir reglugerðarvald hæstv. sjávarútvegsráðherra á hverjum tíma í nánast öllum hlutum. Við þekkjum að í kvótakerfinu getur hæstv. sjávarútvegsráðherra ákveðið hvort ákveðin tegund sé kvótabundin eða ekki, það þarf ekki að fara með það í sérstakt frumvarp. Þess vegna óttast ég þessi vinnubrögð og hugsanlega framkvæmd á þessum lögum og legg til að þessu frumvarpi verði breytt verulega.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er svo sem gott fyrir sitt leyti að fá hugsanlega allan fisk inn í íslenskar fiskvinnslur og tryggja að þær geti boðið í fiskinn. Okkur veitir ekkert af því núna þegar atvinnuástandið er með þeim hætti sem það er. Við þurfum að auka atvinnu innan lands og reyna að auka verðmæti. Það er reyndar ekki víst að það verði vegna þess að oft kemur fyrir að fiskur með haus og hala, eins og maður segir, er dýrari en flök. Þetta á sérstaklega við um ufsa og karfa og þarf að skoða mjög vandlega. Ég legg til að þessi þáttur í frumvarpinu verði ekki þannig að hæstv. ráðherra hafi tækifæri til að leyfa ákveðnum aðilum að flytja út og öðrum ekki, að það sé í hans valdi að ákveða hver fái að flytja út og hver ekki. Það er að mínu mati gjörsamlega ótækt og gengur ekki upp.